Ókei, við erum búin að koma básnum okkar á matarsýningunni nokkurn veginn í horf. Lítið endilega við hjá okkur ef þið komið á sýninguna, við verðum með vín og ólífur og súkkulaði á boðstólum á meðan birgðir endast (vínbirgðirnar alltsvo, við höfum engar áhyggjur af hinu).
Það er nú alltaf gaman að vera á þessum sýningum þótt maður bölvi þeim gjarna í sand og ösku fyrirfram. Að vísu held ég að það verði engir Guðmundar núna eins og síðast.
Einkasonurinn kemur við á eftir, er á leið á generalprufu fyrir kaffibarþjónakeppnina. Ég er að hugsa um að gefa honum kvöldmat sem ég nenni þó ekki að elda. Ég skal láta vita hér þegar ég veit hvort hann keppir á föstudag eða laugardag, svona fyrir þá sem vilja koma og vera stuðningsmenn hans ...