Boltastelpan varð fyrir ágjöf í gær. Hún var á fótboltaæfingu og þær voru að hlaupa meðfram sjónum fyrir framan JL-húsið þegar skyndilega kom stærðar alda á þær og það var ekki þurr þráður á henni og vinkonu hennar. Henni var svo kalt þegar hún kom heim að hún varð hálflasin og fór ekki í skólann í dag. Ég kom við í sjúkraheimsókn hjá henni en hún var að skríða saman eftir volkið.
Bróðir hennar var aftur á móti arfahress og söng hástöfum Nú er frost á Fróni en neitaði aftur á móti að syngja fyrir mig á kínversku. (Hann á kínverskan vin á leikskólanum og kann að syngja a.m.k. eitt kínverskt lag.) Svo sýndi hann mér ógnvekjandi sverð og sagði mér að það stæði á því með ósýnilegum stöfum að með því ætti að drepa víkinga.
-Þeir eru sko til á Íslandi, sagði hann með sannfæringarkrafti. Ég sagði honum að fara fram á gang og gá hvort hann sæi nokkra. En þar var bara snobbkötturinn. Líklega hefur kettinum þó ekki litist vel á sverðið og víkingabanann því að þegar ég kom fram stuttu síðar hafði hann leitað hælis í herbergi Boltastelpunnar og hreiðra um sig uppi í tveggja metra háu rúmi hennar.
Reyndar á ég bágt með að ímynda mér eitthvað sem er minna ógnvekjandi en Sauðargæran. Með eða án sverðs. En snobbkötturinn er að vísu skræfa.