Ég var að fá sent nýja Visakortið mitt sem bankinn minn vildi endilega að ég fengi. Platínukort eða eitthvað. Allt í lagi með það, nema svo sneri ég kortinu við og hvað blasir við? Jú, gamla myndin af mér.
Ekki þessi nýja sem ég gerði mér ferð vestur í bæ með og bað sérstaklega um að yrði sett á kortið. Heldur þessi rúmlega tíu ára gamla sem er ekkert lík mér af því að þar er ég með gleraugu og sítt hár. Og af einhverri ástæðu með frekar grimmdarlegan svip á andlitinu og virðist þar að auki hálslaus af því að ég er í rúskinnsúlpu með loðkraga. Á nýju myndinni er ég stuttklippt og gleraugnalaus, mun sakleysislegri á svipinn og í flegnum bol.
Vesen.