Auðvitað enduðum við á Vínbarnum í gærkvöldi. Eins og flesta sýningardagana síðast.
Sýningin fór annars vel af stað, ýmislegt áhugavert að sjá og smakka, og þar sem þessir tveir fyrstu dagar eru aðeins fyrir boðsgesti er mun fámennara en verður um helgina og betra tóm til að spjalla við fólk.
Við vorum boðnar í þríréttaða máltíð um miðjan daginn og það ekkert slor, þetta voru nefnilega keppnisréttir frá kokkunum sem voru að keppa um titilinn Matreiðslumaður ársins. Ekki slæmt.
Reyndar var enginn af réttunum sem bornir voru fyrir okkur frá sigurvegaranum, Steini Óskari Sigurðssyni á Sjávarkjallaranum. Lárus Gunnar sagði á eftir að líklega yrðu þau á Sjávarkjallaranum að fara að tæma fiskabúrið og breyta því í ,,trophy"-skáp - að minnsta kosti ef nemarnir þeirra vinna líka, en það kemur ekki í ljós fyrr en í dag.
Ég fer aftur á sýninguna um hádegi, sit hér í vinnunni og er að berja saman þetta erindi sem ég lofaði víst að halda.
Einkasonurinn á að keppa í kaffibarþjónakeppninni um klukkan fjögur á morgun. Ef eitthvert ykkar verður á sýningunni þá, mætið þá endilega á staðinn og fylgist með (nú, eða á sunnudaginn ef hann kemst í úrslit).