Varðandi fyrirspurn um pönnur í kommentunum við næstu færslu á undan:
Ég er ekki alveg viss með Alpan. Ég hef átt nokkrar Alpan-pönnur og þær hafa ekki enst sérlega vel en svo erum við með Alpan í Gestgjafaeldhúsinu og þær endast ágætlega en eru reyndar mun minna notaðar en þessar heima hjá mér. Ég á núna húðaða pönnu sem ég keypti í Bónus fyrir lítið og lætur enn ekkert á sjá. (Þegar ég hugsa málið getur verið að hún sé frá Alpan líka, mig minnir að Bónus hafi verið með útsölu á pönnum frá þeim eftir brunann um árið.) Svo er ég með stálpönnu sem ég nota þegar ég vil brúna kjötið meira eða ná upp meiri hita. En mig langar í almennilega, þunga steypujárnspönnu, helst svo þunga að ég ráði með naumindum við hana. Mig langar ekkert í koparpönnu af því að ég veit að ég mundi ekki nenna að pússa hana.
Annars mæli ég eindregið með þessari grein hér fyrir alla sem vilja kynna sér fróðleik um potta og pönnur. Hún er reyndar mjög ítarleg en þarna er líka farið rækilega yfir alla valkosti (ekki framleiðendur reyndar, heldur efni, lögun og annað slíkt).
Svo á ég stóra grillpönnu eða eiginlega grillplötu úr steypujárni, níðþunga, hún tekur yfir tvo brennara á gasinu og virkar jafnt fyrir grænmeti, hamborgara og nautasteik. Mæli með svoleiðis.