Úbbossí, ég var að átta mig á því að það eru ekki nema átta dagar til Þorláksmessu og ég er ekki byrjuð að útbúa Þorláksmessuskinkuna. Og kemst ekki til þess fyrr en annað kvöld í fyrsta lagi. Ég er hrædd um að nú verði ég að stytta mér eitthvað leið - kannski kaupi ég tvo bóga í staðinn fyrir eitt stórt læri. Það gætu orðið tveir hausar af ET þetta árið.
Það verður semsagt opið hús hér á Þorláksmessu eins og vant er. Allir velkomnir. Að vísu verður skarð fyrir skildi þar sem gömlu hjónin verða ekki á staðnum - mamma var í mjaðmaaðgerð í gær á Akureyri og þau koma því ekki suður um jólin - en ég geri nú ráð fyrir að það verði slæðingur af fólki samt sem áður.
Jóladrumburinn verður meira að segja ekta í ár (allavega annar þeirra) þar sem ég keypti kastaníumauk í London á dögunum til að nota á hann. Og svo elda ég fullt af góðum mat og baka slatta af kökum. Sit svo hér eins og drottning í ríki mínu og tek á móti jólagestum ...