Efnafræðistúdentinn hringdi í mig áðan, staddur fyrir utan vinnustað sinn uppi á Lynghálsi (eða hvar þetta er nú, lengst uppí rassgati allavega) og hafði allt í einu áttað sig á því að græna kortið hans er útrunnið og hann peningalaus. Sá fyrir sér langa göngu heim til mömmu ...
Ég aumkaðist yfir hann og millifærði á hann í heimabankanum svo að hann gæti keypt sér strætókort og kæmist heim í kvöldmat. Munur að vera svona nútímavæddur - fyrir fáeinum árum hefði hann ekki getað hringt í mig til að láta vita og ég ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut í því þótt hann væri þarna strandaglópur. Hann hefði bara þurft að labba heim.
Iss, hann hefði haft gott af því.
Smáviðbót: Hann gekk samt alla leið heim. Varð fyrir kríuárás á leiðinni.