Ég veit ekki alveg hvað er í gangi, ég var í Elko áðan og greip sjálfa mig allt í einu í því að standa fyrir framan hilluna með GSM-símunum og velta því fyrir mér hvort ég ætti kannski að fara að láta verða af því að fá mér einn svoleiðis. En svo áttaði ég mig nú.
Annars er ég sífellt að verða meira nátttröll í mínu gemsaleysi. Í gær var ég að panta mér flugfar norður á netinu og þar voru nokkrir reitir til að fylla út, sumir merktir með rauðri stjörnu og tekið fram að skylda væri að fylla út þessa reiti. Þar á meðal GSM-reiturinn en ekki reitur fyrir heima/vinnusíma. Ég lét nú slag standa og setti heimasímanúmerið í GSM-reitinn, það var ekki gerð nein athugasemd við það. En kannski kemst ég að því á morgun að allt er ógilt út af GSM-leysi mínu ...