Þórdís vill vita meira um hryðjuverkaskóla Ananda Marga, sem ég minntist á í kommentunum hjá Ernu. Ég er nú búin að gleyma þessu meira og minna en skal reyna að rifja það upp.
Ég tók semsagt fyrir mörgum árum viðtal fyrir löngu dautt tímarit við mann sem hefur víða komið við; ég ætla af ákveðnum ástæðum að kalla hann Finnandann (nei, þetta var ekki Andrés frændi, sem var reyndar líka í Ananda Marga en var örugglega aldrei sendur á hryðjuverkanámskeið). Viðtalið var um allt aðra hluti en jóga og terrorisma, en þar kom í samtali okkar eftir að formlegu viðtali lauk að Finnandinn fór að segja mér frá árum sínum í Ananda Marga; hann hafði eftir nokkurt uppeldi í þeim samtökum hér heima farið eða verið sendur eitthvað út í heim, ég man ekki hvert, til frekara jógauppeldis. Að nokkrum tíma liðnum hafði anarkískt eðli Finnandans komið skýrt í ljós og það var ákveðið að senda hann í þjálfunarbúðir til Mið-Austurlanda; mig minnir að hann hafi sagt mér að hann hafi ekki áttað sig á því fyrr en þangað kom að þarna var verið að þjálfa fólk í vopnaburði og sprengjugerð. Ananda Marga átti á þessum árum og á kannski enn í stríði við indversk stjórnvöld, enda flokkuð sem hryðjuverkasamtök þar í landi, og markmiðið var (skildist mér) að ráðast á indverska embættismenn heima fyrir og indverska diplómata víða um heim. (Þrír félagar úr Ananda Marga voru dæmdir fyrir sprengjuárás í Ástralíu 1978 en ef ég man rétt voru þeir seinna sýknaðir.)
Finnandinn gekk inn í þetta af lífi og sál og var að eigin sögn talinn efnilegur stríðsmaður. Hann var svo sendur ásamt fleirum til Parísar, þar sem hlutverk hans var að varpa sprengju á eða inn í bíl indverska sendiherrans þegar hann staðnæmdist á gatnamótum. Finnandinn var að því kominn að vinna verkið, stóð með sprengjuna í höndunum og horfði á bílinn nálgast, þegar hann sá allt í einu fyrir sér andlitið á litlu systur sinni ... Þá tók samviskan völdin, hann lagði á flótta (ég gleymdi að spyrja hvað hann gerði af sprengjunni), fór heim til Íslands eftir krókaleiðum og hefur forðast Ananda Marga eins og heitan eldinn síðan.
Eða þetta sagði hann mér. En hann sagði mér reyndar líka frá galdrakrafti sínum og alls kyns dulrænum hæfileikum, morðtilræði við sig og fleiru, svo að ég veit ekki alveg ...