Mér er farið að leiðast þetta frí. Ég hef svosem alveg nóg að gera en það er einhver órói í mér svo að mér gengur illa að halda mér að verki. Gríp allar afsakanir til að standa upp frá vinnunni fegins hendi. Nýi fataskápurinn var ansi drjúgur og á reyndar eftir að endast mér eitthvað lengur en dugir þó ekki til, mig vantar fleiri afsakanir.
Ég er þess vegna að velta því fyrir mér að fara norður á miðvikudaginn og taka Boltastelpuna með. Ég ætla að vera í Skagafirðinum um næstu helgi hvort eð er (ættarmót afkomenda Sveins og Þorbjargar á Skatastöðum) og fínt að bæta við tveimur dögum - þetta verður hvort eð er væntanlega í síðasta skipti sem ég gisti á gamla heimilinu, pabbi og mamma eiga að fá nýju íbúðina afhenta um miðjan mánuðinn. Flytja af Smáragrundinni eftir tæplega 37 ár, það verða óneitanlega viðbrigði.
Mér skilst að pabbi sé búinn að tína til eitthvað af bókum sem hann ætlar mér. Fínt, einmitt það sem mig vantaði, fleiri bækur. Nei, ég slæ svose ekkert hendinni á móti þeim. En það er ljóst að næstu endurskipulagningu á bókakosti heimilisins verður ekki frestað mikið lengur. Ég ætla ekki að leggja hluta af nýja fína rúmgóða fataskápnum mínum undir bækur.
Verst að helvítin hafa tilhneigingu til að troða sér alls staðar þar sem er laust rými.