Komin norður í Skagafjörð ásamt Boltastelpunni (nei, við erum ekki alveg búnar að gefast upp hvor á annarri eftir ferðalagið um daginn) og erum hér náttúrlega í góðu yfirlæti. En veðrið mætti vel vera betra, vona þó að það verði ekki sérlega skítlegt á ættarmótinu um helgina. Allt í lagi reyndar meðan snjóar ekki (einu sinni minnir mig að ættarmóti í minni fjölskyldu hafi verið frestað af því að það var snjór á tjaldstæðinu, síðustu helgina í júní).
Systursonur minn fimm ára er hér líka og það fer afskaplega vel á með þeim frændsystkinunum. Ég er búin að setjast þónokkrum sinnum á prumpblöðrur í dag, börnunum til mikillar skemmtunar. Það sem maður gerir fyrir þessi blessuð börn ...
Skoðaði nýju íbúðina sem gömlu hjónin eru að fara að flytja í seinna í mánuðinum og leist mjög vel á. Ekki síst útsýnið inn fjörðinn. Þótt ég kannski taki ekki alveg undir með Önnu ömmusystur minni, sem óskaði sér þess að deyja í Skagafirði af því að þaðan væri svo stutt upp í himnaríki.