(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

8.2.03

Hafið þið einhvern tíma velt fyrir ykkur hvað verður um alla vasahnífana, skærin og allt hitt sem hirt er af fólki í vopnaleit á flugvöllum? Ég veit svosem ekki hvað verður um það sem tekið er í Leifsstöð en í Bandaríkjunum er það selt á Ebay. Vantar einhvern 25 pund af vasahnífum?

Vopnaleitin á Bolognaflugvelli er hins vegar ekki í lagi. Ég fékk næstum sjokk þegar ég opnaði veskið mitt einhvers staðar yfir Atlantshafi í haust og það fyrsta sem ég rak augun í var vasahnífurinn sem ég hélt ég hefði sett í ferðatöskuna. Eldfjallið sagði þegar við fórum í vopnaleitina ,,við skulum koma og láta gá hvort við séum bófar," en bófaleitarbúnaður Ítalanna var greinilega eitthvað defekt fyrst við sluppum í gegn með hnífinn.

|

Ef ykkur langar í almennilegan ferskan kóríander með bragði, ekki eitthvað sem er ræktað í gróðurhúsi fyrir austan fjall (virðingarvert út af fyrir sig en fremur bragðdauft og ansi dýrt), þá er hann oft til í Filippseyjum á Hverfisgötunni. Seldur í búntum með rót og það er vel hægt að nota rótina líka.

Þarna fæst líka t.d.:
sítrónugras
nokkrar mismunandi tegundir af dvergvöxnum eggaldinum
karrílauf
okra (frosið)
fersk galangalrót
mjölbananar (plantains)
eddoe og/eða taró
og ýmsar aðrar jurtir sem ekki sjást annars staðar.
Fyrir utan allan niðursoðna matinn og pakkamatinn sem iðulega er á betra verði en í öðrum búðum. Þarna eru t.d. niðursoðnar kjúklingabaunir á 129 krónur dósin og kókosmjólk á 150 krónur. Þetta er nefnilega innflytjendaverslun, ekki sælkeraverslun. Ég man varla eftir að hafa séð Íslending þar inni.

|

Það er afmælispartí í startholunum hér og eins og venjulega þegar eitthvað slíkt er í aðsigi hverf ég inn í dyngju mína og kem ekki fram nema nauðsyn krefji. Reyndar hefur það ekki oft komið fyrir að ég hafi þurft að grípa í taumana, minnir þó að einhverntíma á blómaskeiði gagnlega barnsins í djamminu hafi ég skrúfað öryggin úr til að losna við einn menntaskólabekk sem mér þótti stilla músíkina heldur hátt og ekki taka nægilega vel rökum. En ég á ekki von á öðru en þessi hópur hagi sér skikkanlega og verði farinn fyrir klukkan eitt.

Nokkrir vinir afmælisbarnsins voru reyndar boðnir í mat á undan, ég gaf þeim kjúklingakarrírétt og súkkulaðikökur með mjúkri miðju, jarðarberjum og Amarulasósu á eftir. Alveg ljómandi ágætt. Einn þeirra sagði að þetta væri eins og að borða í Álverinu. Það var hrós. Mér þykir alltaf vænt um svoleiðis hrós.

Verst að núna langar mig eiginlega mest í heitt bað og fara svo að sofa. En það verður bið á því og baðið verður víst að bíða til morguns.

|

Efnafræðistúdentinn reyndi að segja mér stærðfræðibrandara áðan. Eitthvað um diffurmonsterið, minnir mig. Hann er bjartsýnn. Ég fattaði reyndar alveg hvar ég átti að hlæja en ekki af hverju.

Við Eldfjallið steiktum tuttugu ameríska kleinuhringi í morgun (hlutverk hennar var að plokka holuna úr hringjunum) og vöktum drenginn svo með volgum kleinuhringjum sem Eldfjallið hafði makað út, suma hverja, í hnausþykkum súkkulaðiglassúr. Veit annars einhver hvort það er a) rétt að bandarískar löggur séu síétandi kleinuhringi og b) ef svo er ekki, af hverju þær eru alltaf að gera það í bíómyndum og bröndurum?

|

7.2.03

Edda miðlun, eða Vaka, eða Disneyklúbburinn, eða einhver partur af því batteríi, er að hleypa af stokkunum nýju tímariti fyrir stelpur 8-15 ára. Allt í lagi með það, en ég set reyndar stórt spurningamerki við markhópinn - hvað eiga 8 ára stelpur og 15 ára stelpur sameiginlegt?

Ég var að skoða auglýsinguna um nýja blaðið í Fréttablaðinu í morgun. Í miðjunni er stóreyg rauðhærð stelpa og í kringum hana eru hörkugellur með stærðar brjóst, bera maga, í aðskornum fötum og gjóta til lesandans því sem kallað var ,,come hither" augnaráð í bíómyndum í gamla daga. Hmm. Og í textanum sem fylgir stendur meðal annars: ,,Þú getur líka lesið um leyndarmálin á bak við stjörnumerkið þitt og lært smá galdrabrögð til að næla í ,,hann, þú veist"."

Einmitt það sem átta ára börn vantar. Leiðbeiningar til að krækja í karlmann.

Lesið endilega greinina um Litla neytandann í Daglegu lífi Moggans í morgun.

|

Svona í framhaldi af auglýsingunni frá Bónus um lélega kjötið, þá má nefna að McDonalds er komið í vörn í máli sem tveir bandarískir offitusjúklingar hafa höfðað á hendur fyrirtækinu. Það er ekki hægt að segja að mótrök fyrirtækisins séu beint jákvæð fyrir ímynd þess:

,,McDonald's argues that the plaintiffs have only themselves to blame, since everyone knows that the highly processed food they serve is less healthy than normal food ...
An industry spokesman has thrown the blame right back on customers, saying that "anyone with an IQ higher than room temperature (hér er að vísu verið að tala um Fahrenheit) will understand that excessive consumption of food served in fast-food restaurants will lead to weight gain."

Dómarinn í málinu hefur aftur á móti bent á að viðskiptavinir geri sér ekki endilega grein fyrir því hversu óhollur maturinn er sem þeir eru að láta ofan í sig; að Chicken McNuggets sé til dæmis ekki bara ,,djúpsteiktur kjúklingur", í bitunum séu 30-40 aukaefni sem ekki mundu vera notuð í heimahúsum, og mun meiri fita. Hann segir að það sé allt í lagi að selja óhollan mat. En þegar maturinn sé mun óhollari en látið er í veðri vaka, þá geti viðskiptavinurinn hugsanlega átt bótarétt. Svo að McDonalds gæti verið í vandræðum. Æ æ.

En hér er uppskrift að skyndibitamat - kjúklingi - sem er ekki nándarnærri eins óhollur og Chicken McNuggets. Þetta er eitthvað sem mig langar helst í þegar verulega kalt og leiðinlegt er úti. Til dæmis á mánudaginn var.

Það þarf að hafa góða pönnu með loki, hæfilega stóra (ekki of litla, kjúklingabitarnir þurfa að komast í einföldu lagi, en ekki of stóra heldur, það má vera dálítið þröngt um þá). Það á ekki að nota of mikla olíu - við erum ekki að tala um djúpsteiktan kjúkling, olían á að ná sirka upp á miðja bitana. Kjúklingurinn á ekki að vera ískaldur þegar byrjað er að steikja hann, helst við stofuhita. Það á bara að velta honum upp úr krydduðu hveiti - ekki eggi, maísmjöli, brauðmylsnu eða neinu slíku. Þaðanafsíður kornfleksi, Rice krispies eða músli - það getur verið ágætt en á ekki við í þessari uppskrift. Það er hins vegar tilvalið að dýfa bitunum í smá mjólk eða súrmjólk til að meira hveiti tolli við þá og maður fái meiri stökka skorpu (en það þýðir auðvitað líka meiri fitu). Og að lokum, og þetta er verulega mikilvægt: Það á ekki að borða kjúklinginn sjóðheitan beint upp úr feitinni. Hann á að bíða nokkra stund í volgum ofni.

Kjúklingur steiktur í olíu er svosem ekkert hollustufæði en þó drekkur hann í sig mun minna af fitu ef honum er eingöngu velt upp úr hveiti en ef notuð eru egg, brauðmylsna eða Orly-deig. Og það er best að nota repjuolíu (raps, Canola), e.t.v. blandaða dálítilli ólífuolíu. Til að steikingin verði jöfn er best að skera kjúklinginn í sem jafnasta bita - átta til tíu bita hvern kjúkling. En mér finnst reyndar líka upplagt að steikja kjúklingavængi eða leggi á þennan hátt.

Steiktur kjúklingur
(Southern fried chicken)

1 kjúklingur, skorinn í bita, eða 1 kg kjúklingavængir eða leggir
150 g hveiti
1 msk paprikuduft
1/4 tsk chilipipar
nýmalaður pipar
salt
olía til steikingar (u.þ.b. 750 ml gæti verið hæfilegt)


Kjúklingurinn tekinn úr kæli með góðum fyrirvara svo að hann sé við stofuhita. Hveiti, papriku, chili, pipar og salti blandað saman í skál eða plastpoka. Kjúklingabitunum dýft sem snöggvast í vatn, mjólk eða súrmjólk, það hrist af þeim og síðan velt mjög vel upp úr hveitinu og reynt að láta sem mest hveiti tolla á bitnum. Olían hituð á stórri pönnu eða í víðum potti; hún á að vera 2-3 sm djúp. Ofninn hitaður í 100 gráður. Þegar olían er orðin vel heit eru kjúklingabitarnir settir út í; þeir mega alveg vera nokkuð þétt á pönnunni. Þegar þeir eru allir komnir á pönnuna og feitin sýður í kringum þá er hitinn lækkaður og þétt lok sett á pönnuna. Bitarnir steiktir í um 5 mínútur (vængir; þykkari bitar þurfa 1-2 mínútum lengri tíma) og síðan snúið og steiktir álíka lengi á hinni hliðinni undir loki. Lokið tekið af, hitinn hækkaður og bitarnir steiktir áfram þar til þeir eru gullinbrúnir. Þá er þeim raðað á eldfast fat, þeir settir í ofninn og slökkt á honum. Látnir standa í um 10 mínútur og síðan bornir fram.

Finger-lickin´ good.
|

Sauðargæran er flagari. Það fer ekki á milli mála. Og nýtir sér smábarnabrosið óspart til að vefja kvenfólki um fingur sér.

Hann er búinn að vera með stöðugt horstreymi úr nösunum nánast frá fæðingu. Merkilegt hvað lítið nef getur framleitt mikið af hor. Svo stöðugt að ef ætti að virkja það væri sko ekki þörf á neinu miðlunarlóni. Ef snýtuklútar og pappírsþurrkur eru ekki sífellt á lofti fer hann samstundis að minna á tröllkarlinn Hordingul. Sá var með slóða úr nefinu niður að hnjám og var alltaf að reyna að fá bændadætur til að kyssa sig, því hann var auðvitað prins í álögum. Þetta gekk ekki með Ásu og Signýju frekar en vant er í ævintýrum en Helga systir þeirra var séðari, lagði svuntuhornið sitt eða eitthvað álíka á milli og smellti kossi á tröllkarlinn gegnum svuntuhorn og hor og það dugði, tröllkarlshamurinn féll af honum og þau lifðu hamingjusöm til æviloka.

Ef Sauðargæran væri prins en ekki úlfur undir sakleysishamnum, þá væri hann laus úr álögum fyrir löngu, svo margar konur sem hann hefur tælt til að kyssa sig, þrátt fyrir horinn. Og ekki þurft svuntur til. Hann verður skæður þegar hann kemst á unglingsárin. Þið mömmur sem eigið dætur á fyrsta og öðru ári ættuð að vara þær við honum strax.

|

6.2.03

Hmm, þetta hafði ég aldrei hugsað út í: Hvernig fer fyrir grænmetisætum sem lenda í steininum? Og hvernig ætli þetta sé hér? En Árni er nú sennilega ekki grænmetisæta.

|

Bónus auglýsir ,,lélegt súpukjöt" á 199 krónur kílóið. Þetta getur maður nú kallað heiðarleika í auglýsingum. Örugglega hægt að gera ágætis soð af þessu kjöti samt, ég er að hugsa um að kaupa slatta.

|

Til heiðurs afmælisbarninu (og samkvæmt beiðni) kemur hér uppskriftin að uppáhaldsmatnum hans. Ég var með hana á póstlistanum fyrir tveimur árum og hún hefur líka birst á bók en hún þolir alveg endurbirtingu.

Ég bý lasagneplöturnar til sjálf í pastavélinni sem drengurinn gaf mér í jólagjöf um árið en uppskriftin er samt miðuð við ferskar lasagneplötur sem maður fær út í búð, eða þurrkaðar plötur, en þá þarf að forsjóða þær í svona þrjár eða fjórar mínútur. Þessar sem ég bý til eru reyndar þynnri en þær sem hægt er að kaupa og þess vegna eru fleiri pastalög í mínu lasagna en því sem uppskriftin hér á eftir (sem sé pasta - kjötsósa - pasta - ostasósa - pasta - kjötsósa - pasta, o.s.frv., ekki pasta - kjötsósa - ostasósa - pasta - kjötsósa - ostasósa - pasta ...)

Þetta er ekki hefðbundið ítalskt lasagne - en reyndar á hvert hérað á Ítalíu sitt lasagneafbrigði og sum innihalda eitt og annað sem orðið gæti til þess að tvær grímur rynnu á þá sem boðið væri til veislunnar, jafnvel hörðustu lasagneaðdáendur - ég hef séð uppskriftir sem innihalda hluti eins og valmúafræ, harðsoðin egg, gráfíkjur, briskirtla, svínablóð, eistu og fleira athyglisvert. Þetta er semsagt ekki svoleiðis uppskrift, heldur sæmilega venjulegt lasagne al forno, þó með þeirri tilbreytingu að hér er ekki notuð hvít mjólkursósa (béchamelsósa), heldur rjómaostssósa.

Þótt ég noti ekkert af þessum exótísku hráefnum eru ákveðnir hlutir sem ég hef þurft að fela fyrir syni mínum. Það er nefnilega svolítið grænmeti í lasagneinu, og það var lengi vel algjört bannorð. En nú er drengurinn búinn að ná þeim þroska að hann hefur áttað sig á staðreyndum lífsins:
1) Kjötsósan er miklu betri ef það er grænmeti í henni.
2) Það er hægt að saxa grænmeti svo smátt að maður taki ekki eftir því. ,,People who love the law and sausages should watch neither being made," sagði einhver vís maður - hvað drenginn varðar gildir þetta líka um kjötsósu.
3) Hún verður líka miklu betri ef hún fær að malla lengi lengi. Ekki reka á eftir mömmu þótt ilminn leggi um alla íbúðina og maður sé að verða viðþolslaus.

Niðurstaðan er sú að ég byrja á lasagnegerðinni þegar hann er ekki viðstaddur, saxa grænmetið örsmátt í matvinnsluvélinni og hann sér ekki sósuna fyrr en hún er farin að samlagast. Og hún fær að malla í tvo til þrjá tíma lágmark, og stundum allt upp í fimm eða sex tíma, þótt það megi alveg nota hana eftir 20 mínútna suðu. Þegar sósan er soðin svona lengi skiptir ekki höfuðmáli hvers konar hakk er notað, svo framarlega sem það er ekki allt of feitt (12-16% er hæfilegt) og ég er ekki að kaupa rándýrt ungnautahakk í þetta. - Það er líka gott að búa til stóran skammt af sósunni og frysta, því þetta er t.d. fín pastasósa.

Ef ég á ferskan mozzarella-ost til að setja ofan á, þá nota ég hann. En ég hef reyndar notast víð ýmsar ostategundir. - Þetta lasagne er ágætt upphitað daginn eftir, og það má líka frysta það. En heima hjá mér er sjaldan afgangur.

Lasagne fyrir Hjalta

1 gulrót
1 laukur
1 sellerístöngull
3-5 hvítlauksgeirar
2 msk ólífuolía
6-700 g kjöthakk
1 tsk oregano
1 tsk basilíka
1 tsk timjan
2 lárviðarlauf
nýmalaður pipar
salt
1 tsk sykur
4-5 tómatar, vel þroskaðir, saxaðir smátt (eða 1 dós niðursoðnir)
2 dósir tómatmauk (puré, ekki paste. Það má líka nota meira af niðursoðnum, söxuðum tómötum, eða tómatsafa)
300 ml matreiðslurjómi eða mjólk
200 g rjómaostur
1 pakki ferskar lasagneplötur, eða þurrkaðar plötur eftir þörfum
100 g ostur, gjarna ferskur mozzarellaostur


Gulrót, laukur, sellerí og hvítlaukur saxað smátt, eða sett í matvinnsluvél. Olían hituð í víðum potti eða á pönnu og grænmetið látið krauma í henni við fremur vægan hita í 6-8 mínútur; hrært öðru hverju. Hakkinu bætt á pönnuna og látið krauma áfram þar til það hefur allt tekið lit. Þá er kryddjurtunum bætt á pönnuna ásamt pipar, salti og sykri og síðan er tómötum og tómatmauki hrært saman við. Hitað að suðu og látið malla við vægan hita í hálflokuðum potti í 20 mínútur til 6 klst., eftir behag og þeli hverju sinni. Hrært öðru hverju og svolitlu vatni eða tómatsafa bætt út í eftir þörfum svo sósan brenni ekki við. Smakkað öðru hverju (þess þarf svo sem ekki en það er gaman að fylgjast með því hvernig bragðið breytist smám saman og verður kröftugra og betra). Þegar sósan er tilbúin er rjóminn eða mjólkin sett í annan pott ásamt ostinum. Hitað rólega og hrært þar til osturinn er bráðinn. Ég krydda ostasósuna alltaf með basilíku og pipar en það er í rauninni óþarfi. Ofninn hitaður í 200 gráður. Dálítið af ostasósu sett á botninn á lasagnefatinu, pastaplötur þar ofan á, þá kjötsósa og meiri ostasósa, aftur pastaplötur, og þannig koll af kolli. Afganginum af ostasósunni er svo hellt yfir og síðan er osturinn skorinn í sneiðar eða rifinn og dreift yfir. Sett í ofninn í um hálftíma, eða þar til ostaþekjan er gullinbrún. Látið standa í nokkrar mínútur en síðan borið fram.

|

Þar sem komið er fram yfir miðnætti, þá er runninn upp afmælisdagur efnafræðistúdentsins. Og reyndar Ronalds Reagan líka, drengurinn fæddist á sjötugsafmæli Bandaríkjaforseta, sem þá var nýtekinn við embætti og ekki kominn með verulega áberandi Alzheimereinkenni.

|

5.2.03

Haloscan.com segir ,,server work in progress" - kommentakerfið er allavega óvirkt enn svo að ég get delerað eitthvað áfram án þess að nokkur skipti sér af.

Annars finnst mér alltaf mikill kostur við blogg að það sé gefinn möguleiki á að koma með athugasemdir eða tjá sig um færslurnar. Ekki vegna þess að ég hafi svo mikið af skoðunum um skoðanir annarra sem ég þarf endilega að koma á framfæri - nei, en mér finnst sjálfsagt að gefa fólki kost á að tjá sig ef það vill. Og mér finnst alltaf svolítið sérkennilegt að sjá bloggara sem ekki eru með neitt kommentakerfi hjá sér vera svo óspart að gera athugasemdir á bloggum annarra.

En það hefur hver sinn stíl.

Bráðavaktin er að fara að byrja. Nú hef ég ekki horft á þýska sjónvarpið að undanförnu og veit því ekkert hvað gerist í þættinum í kvöld, en vonandi er Mark að fara að sálast, ég nenni ekki að horfa á meira kvalafullt dauðastríð. Reyndar held ég að hann fari til Karíbahafsins eða Havaí eða eitthvað og hrökkvi upp af þar. Sem er góð hugmynd út af fyrir sig, ég ætla helst að taka seinustu andvörpin í sól og sumaryl. Ég held að það sé leiðinlegt að deyja á veturna, allavega verður öllum kalt við jarðarförina. Reyndar ætla ég helst að láta dreifa öskunni af mér einhvers staðar en maður vill ekki að fólk verði loppið á höndunum við svoleiðis. Svo hefur mig stundum langað til að láta syngja Ljómar heimur yfir mér og það er ekki hægt að vetri til. En reyndar gæti það verið snúið líka ef ég dæi suður á Krít eða einhverjum svoleiðis stað, vandræði með söngfólk sem kann textann. Það þarf Skagfirðinga til.

En nú er komið að Bráðavaktinni.

|

Einhvern tíma stóð til að þetta yrði alminlegt matarblogg, jafnvel með uppskriftum og veseni. Ég hef ekki staðið mig neitt í því en nú er komið að því að bæta úr. Ég var beðin um uppskriftir að tapasréttum um daginn og hér koma nokkrar - örugglega allt of seint samt.

Saltaðar möndlur

1 msk smjör
3 msk ólífuolía
200 g heilar, afhýddar möndlur
2 msk gróft salt
1/4 tsk cayenne- eða chilipipar


Smjör og olía hitað á pönnu, möndlurnar settar út í og steikt við meðalhita í um 5 mínútur, eða þar til möndlurnar eru gullinbrúnar. Hrært stöðugt. Salt og cayennepipar hrært saman í víðri skál. Möndlunum hellt yfir og hrært. Látnar kólna .

Patatas bravas chilenas

800 g kartöflur, helst litlar
salt
3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2-3 þurrkuð chilialdin, mulin
1 ½ tsk oregano, þurrkað
1 tsk kummin, steytt
½ tsk annattofræ ef þið eigið þau, annars má sleppa þeim, þetta er bara upp á litinn
2 msk svínafeiti (ókei, það má nota olíu)
1 dós tómatar, saxaðir
6-10 svartar ólífur, saxaðar smátt


Kartöflurnar soðnar í saltvatni þangað til þær eru meyrar. Best er að nota litlar kartöflur með hýði en ef þær eru stórar er best að skera þær í bita og afhýða þær ef hýðið er þykkt. Vatninu er svo hellt af þeim og potturinn hristur dálítið til að hýðið byrji aðeins að rifna utan af (ef þær eru með hýði). Á meðan kartöflurnar sjóða er hvítlaukur, chili, oregano og e.t.v. annatto steytt í mortéli eða saxað mjög smátt. Feitin hituð í potti og kryddblandan látin krauma í 2-3 mínútur. Tómatarnir settir út í og látið malla í 5-10 mínútur. Ólífunum hrært saman við og síðan kartöflunum.

Chilikryddaður kjúklingur á teini

400 g kjúklingabringur, beinlausar og hamflettar
3 msk ólífuolía
1-2 þurrkuð chilialdin, fínmulin
1 msk sítrónusafi
nýmalaður pipar
salt


Kjúklingabringurnar skornar í mjóar ræmur og settar í skál. Olíunni hellt yfir og síðan er muldu chilii, sítrónusafa, pipar og salti hrært saman við. Látið standa nokkra stund. Útigrill eða grillið í ofninum hitað. Bringuræmurnar þræddar upp á tréteina og grillaðar í 4-6 mínútur við góðan hita, eða þar til kjúklingurinn er steiktur í gegn.

Lambalundir á teini

400 g lambalundir
3 msk ólífuolía
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
nýmalaður pipar
salt


Lundirnar skornar í ræmur, um 1 cm á breidd, og settar í skál. Olíunni hellt yfir og öllu hinu blandað saman við. Látið standa nokkra stund. Útigrill eða grillið í ofninum hitað. Kjötið þrætt upp á tréteina (gott er að láta þá liggja í bleyti nokkra stund svo að kvikni síður í þeim) og grillað í 5-7 mínútur við góðan hita.

Djúpsteiktar saltfiskbollur

2 kartöflur, afhýddar og skornar í bita
500 g saltfiskur, afvatnaður
2 msk ólífuolía
1 laukur, saxaður smátt
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
2-3 msk steinselja, söxuð
1 egg
1/4 tsk nýmalaður pipar
chilipipar á hnífsoddi
olía til djúpsteikingar


Kartöflurnar settar í pott ásamt svo miklu vatni að rétt fljóti yfir og soðnar uns þær eru meyrar en síðan hellt í sigti og látið renna vel af þeim. Á meðan er saltfiskurinn soðinn í öðrum potti við mjög vægan hita í 15-20 mínútur eftir þykkt, eða þar til unnt er að losa hann sundur í flögur. Olían hituð á lítilli pönnu og laukurinn og hvítlaukurinn látinn krauma í henni við meðalhita þar til hann er glær og meyr en ekki farinn að brúnast. Steinseljunni hrært saman við og tekið af hitanum. Kartöflurnar stappaðar og laukblöndu og saltfiski hrært saman við. Hrært rösklega, þar til fiskurinn er kominn í mauk. Helmingnum af egginu bætt út í ásamt kryddinu og hrært. Meira eggi bætt við ef þarf; farsið á að vera fremur þétt í sér, svo auðvelt sé að móta úr því bollur. Sett í kæli á meðan olían er hituð í þykkbotna potti eða djúpsteikingarpotti í um 185 gráður. Farsið mótað í bollur, 2-3 cm í þvermál, og þær steiktar, 6-8 í senn, í um 2 mínútur, eða þar til þær eru gullinbrúnar; snúið á meðan þær steikjast svo þær brúnist jafnt á öllum hliðum. Teknar upp með gataspaða, látið renna af þeim á eldhúspappír og haldið heitum á meðan afgangurinn er steiktur. Bollurnar eru bornar fram heitar eða volgar.

Grillaðar rækjur

16 risarækjur, hráar í skel
4 msk ólífuolía
safi úr 1/4 sítrónu
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 tsk saxað fennikulauf (má sleppa)
nýmalaður pipar
salt


Rækjurnar látnar þiðna. Olía, sítrónusafi, hvítlaukur, fennikulauf, pipar og salt þeytt saman í skál. Rækjurnar settar út í, velt upp úr kryddleginum og þær látnar liggja í honum á meðan grillið er hitað. Þræddar upp á teina og grillaðar við háan hita í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær hafa breytt um lit. Borið fram t.d. með allioli.

Katalónsk hvítlaukssósa (Allioli)

6 hvítlauksgeirar, saxaðir
1/2 tsk salt
1 eggjarauða
2 tsk sítrónusafi
2-2 1/2 dl ólífuolía, helst spænsk
nýmalaður pipar


Hvítlaukurinn settur í mortél ásamt saltinu og steyttur í slétt mauk. Eggjarauðu og sítrónusafa hrært saman við og síðan olíunni smátt og smátt, þar til komin er þykk sósa.

Buen provecho.

|

Kommentakerfið virkar ekki þessa stundina þar sem Haloscan.com er niðri. Vonandi lagast það fljótlega. Ef einhver skyldi vilja leggja eitthvað til málanna.

Ég sit hér og er að skrifa frétt um Food & Fun 2003, sem gengur ekkert of vel af því að það er frekar æst kona fyrir framan skrifstofuna mína. Nei, hún er ekki að æsa sig við mig.

Einhvern tíma bráðum, þegar ég hef betri tíma, skal ég segja söguna af því þegar bandaríska blaðakonan kom í mat til mín á Food & Fun í fyrra. Sumir hafa reyndar þegar heyrt hana en ef ég ætti að segja frá því neyðarlegasta sem komið hefur fyrir mig í eldamennsku, eins og fólk er gjarna spurt um í tímaritum, þá væri þetta örugglega á toppnum. Afkomendur mínir, sem eru hver öðrum kvikindislegri, hlógu allir eins og bestíur. Reyndar ekki Sauðargæran, sem var of ungur til að hlæja að ráði að ömmu sinni. Hann mundi ekki stilla sig um það núna.

Ég hló sjálf manna mest. Þetta var svona ,,hlæja eða gráta"-móment. Ég hlæ venjulega við slíkar aðstæður. Það er betra.

|

4.2.03

,,Question: If you could live forever, would you and why?

Answer: I would not live forever, because we should not live forever, because if we were supposed to live forever, then we would live forever, but we cannot live forever, which is why I would not live forever."
Miss Alabama in the 1994 Miss USA contest

Sko, ég skil alveg hvað stúlkan er að fara, þannig séð. Er það slæmt? Þýðir það að ég sé sjálf voðamikil ljóska?

|

Eldfjallið birtist í vinnunni hjá mér með óvænta gjöf, pakka af eigin framleiðslu af úrvalskaffi. Hún hafði fengið að fara í vinnuna með pabba sínum í gær og þar tók hún til kaffibaunir, brenndi þær (hefur þó sennilega fengið hjálp við það), pakkaði þeim, skreytti pakkann með tveimur litlum súkkulaðistykkjum og merkti hann með miða sem á stendur ,,Heklukaffi - besta kaffið". Og teikningar af blómi og hjarta.

Ég fæ oft kaffi gefins og það er yfirleitt gæðavara sem ég vanþakka ekki. En þetta var örugglega besta kaffigjöf sem ég hef nokkurn tíma fengið.

|

Jæja, vegna fjölda áskorana (ókei, tveggja, en Siggi stóri sannaði fyrir Tryggva skólameistara um árið að fyrst þrír gætu kallast ,,fjöldi fjöldi" hlytu tveir að geta kallast ,,fjöldi" - nei, þessi var víst of lókal) - allavega, þá er hér ekki bara þessi nærbuxnakönnun, heldur önnur til.

|

Ég átti ruglingslegt símtal við efnafræðistúdentinn áðan sem snerist að mestu um smjörbirgðir heimilsins, sem eru allnokkrar af því að ég kaupi gjarna smjör þegar ég fer í búð þar sem mig minnir alltaf að það sé að verða búið. Hann sagði að enginn hefði dáið af of miklu smjöri (örugglega rangt), mundi svo eftir einhverjum Norðmönnum í Olsenbanden-mynd, en þegar hann fór að rekja söguþráðinn fyrir mér kom í ljós að:

a) það dó enginn
b) þetta var eitthvert EB-smjörfjall sem Egon var að plotta með og endaði á að úldna á járnbrautarstöð
c) það voru víst engir Norðmenn í myndinni
d) Norðmaðurinn (eitt stykki) var í allt annarri mynd, var á duggarapeysu og sást lítið, en hlutverk hans var að öðru leyti óljóst
e) hann dó ekki heldur
e) ég þarf að fara að horfa aftur á Olsensafnið okkar.

|

Allir sem taka próf eins og þetta hér að neðan fá einhvern sem er ,,mysterious, hot, gorgeous, smolderingly sexy" eða eitthvað svoleiðis. Ég? Ég fæ tvo hobbitaaula. Ekki einn, heldur tvo. Story of my life.

Ókei, ég get alveg fallist á að Aragorn væri ekki mín týpa. En samt.

Ég ætla ekki einu sinni að segja frá því hvað gerist þegar ég tek próf eins og ,,hvernig nærbuxur ertu" eða eitthvað slíkt (já, það er til svoleiðis próf).

|

3.2.03

Er þetta nú ekki típískt? My ideal Lord of the Rings mate:


your ideal mate(s) are Merry and Pippin!
M&P


Who is your Ideal Lord of the Rings (male) Mate?
brought to you by Quizilla


Ég sem var að vonast eftir Aragorn ...

|

Tillaga Evans Marriott, náungans sem leikur Jóa milljónamæring í ,,raunveruleika"-þættinum sem allir horfa á og enginn vill viðurkenna að hann horfi á í Ameríku núna, um lausn á Íraksvandanum: "I think we ought to turn Iraq into Arab Disney. We got Japanese Disney, we got Euro Disney, we got American Disney. What's wrong with Arab Disney? It'd be a great place for Aladdin."

Og Saddam verður andinn í lampanum, eða hvað?

Já, og hópur af rússneskum lögfræðingum er að undirbúa málssókn á hendur Warner Brothers fyrir vanvirðingu við þjóðarleiðtoga. Húsálfurinn Dobby í Harry Potter og leyniklefinn þykir óþægilega líkur Vladimír Pútín.

|

Skyldi vera hægt að lifa á Guinness eingöngu? Lesendur Guardian hafa allavega ákveðnar skoðanir á því.

Ég reyndi annars að fara inn á Guinnessvefinn áðan, hakaði samviskusamlega við að ég væri á Íslandi og fékk þá skilaboðin:

Your country of residence does not permit you to view this site.

Please exit the Guinness®.com website.

Oh well. Mér náttúrlega datt ekki í hug að skrökva, það geri ég aldrei, en ákvað samt að gera aðra tilraun og sló inn www.guinness.com í staðinn fyrir guinness.co.uk eða guinness.ie. Þá var allt opið og ég ekkert spurð um búsetu. Hmmm.

|

Ég heyrði fróðlegt viðtal í morgunútvarpinu við kræklingaræktanda. Hann sagði meðal annars að einhverjir helstu óvinir kræklingaræktar á Íslandi væru æðarkollur. Allt í lagi, þær eru kannski meira fyrir krækling en blikarnir, hvað veit ég. Nema svo sagði hann að í Dýrafirði (minnir mig) væru sex þúsund æðarkollupör. Ég vissi svosem að samkynhneigð þekktist í dýraríkinu en að hún væri svona algeng grunaði mig nú ekki.

|

2.2.03

En, nota bene, ég er ekkert að kvarta yfir matnum. Hann var ágætur út af fyrir sig. Ekkert ofboðslega sérstakur, en ágætur.

Ég er bara svona ferlega góður kokkur.

Hlýtur að vera.

|

Mér finnst ...

að þegar maður fer á Holtið í fimm rétta galakvöldverð eldaðan af frönskum Michelinstjörnuprýddum gestakokki

... þá eigi maður ekki að sitja á eftir og hugsa:

,,Þetta gæti ég nú gert betur heima hjá mér."

Sem kom einmitt fyrir mig áðan.

|