(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

5.2.03

Einhvern tíma stóð til að þetta yrði alminlegt matarblogg, jafnvel með uppskriftum og veseni. Ég hef ekki staðið mig neitt í því en nú er komið að því að bæta úr. Ég var beðin um uppskriftir að tapasréttum um daginn og hér koma nokkrar - örugglega allt of seint samt.

Saltaðar möndlur

1 msk smjör
3 msk ólífuolía
200 g heilar, afhýddar möndlur
2 msk gróft salt
1/4 tsk cayenne- eða chilipipar


Smjör og olía hitað á pönnu, möndlurnar settar út í og steikt við meðalhita í um 5 mínútur, eða þar til möndlurnar eru gullinbrúnar. Hrært stöðugt. Salt og cayennepipar hrært saman í víðri skál. Möndlunum hellt yfir og hrært. Látnar kólna .

Patatas bravas chilenas

800 g kartöflur, helst litlar
salt
3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2-3 þurrkuð chilialdin, mulin
1 ½ tsk oregano, þurrkað
1 tsk kummin, steytt
½ tsk annattofræ ef þið eigið þau, annars má sleppa þeim, þetta er bara upp á litinn
2 msk svínafeiti (ókei, það má nota olíu)
1 dós tómatar, saxaðir
6-10 svartar ólífur, saxaðar smátt


Kartöflurnar soðnar í saltvatni þangað til þær eru meyrar. Best er að nota litlar kartöflur með hýði en ef þær eru stórar er best að skera þær í bita og afhýða þær ef hýðið er þykkt. Vatninu er svo hellt af þeim og potturinn hristur dálítið til að hýðið byrji aðeins að rifna utan af (ef þær eru með hýði). Á meðan kartöflurnar sjóða er hvítlaukur, chili, oregano og e.t.v. annatto steytt í mortéli eða saxað mjög smátt. Feitin hituð í potti og kryddblandan látin krauma í 2-3 mínútur. Tómatarnir settir út í og látið malla í 5-10 mínútur. Ólífunum hrært saman við og síðan kartöflunum.

Chilikryddaður kjúklingur á teini

400 g kjúklingabringur, beinlausar og hamflettar
3 msk ólífuolía
1-2 þurrkuð chilialdin, fínmulin
1 msk sítrónusafi
nýmalaður pipar
salt


Kjúklingabringurnar skornar í mjóar ræmur og settar í skál. Olíunni hellt yfir og síðan er muldu chilii, sítrónusafa, pipar og salti hrært saman við. Látið standa nokkra stund. Útigrill eða grillið í ofninum hitað. Bringuræmurnar þræddar upp á tréteina og grillaðar í 4-6 mínútur við góðan hita, eða þar til kjúklingurinn er steiktur í gegn.

Lambalundir á teini

400 g lambalundir
3 msk ólífuolía
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
nýmalaður pipar
salt


Lundirnar skornar í ræmur, um 1 cm á breidd, og settar í skál. Olíunni hellt yfir og öllu hinu blandað saman við. Látið standa nokkra stund. Útigrill eða grillið í ofninum hitað. Kjötið þrætt upp á tréteina (gott er að láta þá liggja í bleyti nokkra stund svo að kvikni síður í þeim) og grillað í 5-7 mínútur við góðan hita.

Djúpsteiktar saltfiskbollur

2 kartöflur, afhýddar og skornar í bita
500 g saltfiskur, afvatnaður
2 msk ólífuolía
1 laukur, saxaður smátt
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
2-3 msk steinselja, söxuð
1 egg
1/4 tsk nýmalaður pipar
chilipipar á hnífsoddi
olía til djúpsteikingar


Kartöflurnar settar í pott ásamt svo miklu vatni að rétt fljóti yfir og soðnar uns þær eru meyrar en síðan hellt í sigti og látið renna vel af þeim. Á meðan er saltfiskurinn soðinn í öðrum potti við mjög vægan hita í 15-20 mínútur eftir þykkt, eða þar til unnt er að losa hann sundur í flögur. Olían hituð á lítilli pönnu og laukurinn og hvítlaukurinn látinn krauma í henni við meðalhita þar til hann er glær og meyr en ekki farinn að brúnast. Steinseljunni hrært saman við og tekið af hitanum. Kartöflurnar stappaðar og laukblöndu og saltfiski hrært saman við. Hrært rösklega, þar til fiskurinn er kominn í mauk. Helmingnum af egginu bætt út í ásamt kryddinu og hrært. Meira eggi bætt við ef þarf; farsið á að vera fremur þétt í sér, svo auðvelt sé að móta úr því bollur. Sett í kæli á meðan olían er hituð í þykkbotna potti eða djúpsteikingarpotti í um 185 gráður. Farsið mótað í bollur, 2-3 cm í þvermál, og þær steiktar, 6-8 í senn, í um 2 mínútur, eða þar til þær eru gullinbrúnar; snúið á meðan þær steikjast svo þær brúnist jafnt á öllum hliðum. Teknar upp með gataspaða, látið renna af þeim á eldhúspappír og haldið heitum á meðan afgangurinn er steiktur. Bollurnar eru bornar fram heitar eða volgar.

Grillaðar rækjur

16 risarækjur, hráar í skel
4 msk ólífuolía
safi úr 1/4 sítrónu
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 tsk saxað fennikulauf (má sleppa)
nýmalaður pipar
salt


Rækjurnar látnar þiðna. Olía, sítrónusafi, hvítlaukur, fennikulauf, pipar og salt þeytt saman í skál. Rækjurnar settar út í, velt upp úr kryddleginum og þær látnar liggja í honum á meðan grillið er hitað. Þræddar upp á teina og grillaðar við háan hita í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær hafa breytt um lit. Borið fram t.d. með allioli.

Katalónsk hvítlaukssósa (Allioli)

6 hvítlauksgeirar, saxaðir
1/2 tsk salt
1 eggjarauða
2 tsk sítrónusafi
2-2 1/2 dl ólífuolía, helst spænsk
nýmalaður pipar


Hvítlaukurinn settur í mortél ásamt saltinu og steyttur í slétt mauk. Eggjarauðu og sítrónusafa hrært saman við og síðan olíunni smátt og smátt, þar til komin er þykk sósa.

Buen provecho.

|