Ríkismenn í rusli
Ég mislas þessa fyrirsögn á Fréttagáttinni áðan; sýndist standa Auðmenn í ruslafötum ... Mundi eftir einhverju tali um finnska fyrrverandi auðmenn sem hefðu verið að tína mat upp úr ruslagámum í kreppunni þar og sá fyrir mér Jón Ásgeir, Bakkavararbræður, Hannes Smára og fleiri að kraka oní ruslafötur eftir flöskum og hálfétnum samlokum í kapphlaupi við reynt fólk í þeim bransa. Vorkenndi þeim nú ekkert voðalega.
En þeir eru víst enn í margramilljarða lúxusíbúðunum sínum í New York og London. Samt gæti ég trúað að samkeppnin í ruslafötugramsi hafi aukist að undanförnu og eigi eftir að aukast enn.