Jarðarfarir, skata og gúmmíbangsar
Ég held ég hafi minnst á það áður en stundum þegar maður rekst á bækur eða vefsíður sem gefa sig út fyrir að greina frá matarvenjum um heim allan eða vera með uppskriftir frá fjölda landa veltir maður fyrir sér hvaða mark eigi að taka á slíkum upplýsingum. Þá fletti ég gjarna upp á Íslandi og ef þess er getið kemur oftar en ekki í ljós að upplýsingarnar eru ekki aaaalveg réttar. Og þá kannski ekkert meira að marka það sem sagt er um önnur lönd.
Ég er til dæmis hér með bók sem mér áskotnaðist nýlega og heitir Death Warmed Over: Funeral Food, Rituals and Customs from Around the World. Og er með uppskriftum frá yfir 70 löndum eða þjóðum um víða veröld. Að sögn. Ég þykist reyndar sjá hvað hefur gerst: Höfundurinn (bandarísk kona) er að velta fyrir sér mismunandi útfararsiðum og mat tengdum jarðarförum í nokkrum löndum eða menningarkimum sem hún þekkir til. Fær brilljant hugmynd og tekst að selja útgefanda hana. Byrjar að safna efni í bókina ... og hana rekur fljótlega í strand. Sérstakir jarðarfararréttir eru kannski færri en hún hefur haldið eða það gengur ekkert að fá upplýsingar um þá eða safna uppskriftum. Lítið mál kannski að finna eitthvað um útfararsiði, jafnvel upplýsingar um að hér sé nú siður að fólk komi með pottrétti eða í þessu landi sé haldin drykkjuveisla og svo framvegis - en engar eiginlegar uppskriftir. Svo að hún fer að spinna uppskriftir og jafnvel útfararsiði líka. Eða þaðan af verra.
Ég fletti upp á Íslandi. Ekki byrjar nú sá kafli efnilega: ,,Up until the start of the twentieth century, killing the oldest and/or weakest members of a tribe or family was a common event." Svo heldur áfram eitthvert bull í sama dúr um hungursneyðir og drauga. Og svo vantar konuna uppskrift en finnur náttúrlega enga og sennilega engar upplýsingar um jarðarfarir heldur. En bíðum við: Einhversstaðar hefur hún rekist á upplýsingar um Þorláksmessu og að það sé dánardagur Þorláks helga. Sem hún tengir þá við jarðarfarir: ,,Many Icelanders celebrate both the shortest day of the year and the saint's death day by eating the fish known as skate."
Og kemur svo uppskrift að kæstri skötu? Neineinei. Uppskriftin er að pönnusteiktri skötu (eða ,,Icelandic flounder fillets" ef maður á ekki skötu) með sósu úr smjöri, hvítvíni og pekanhnetum.
Þetta er nú samt hátíð hjá þeirri meðferð sem matarmenning Tíbetbúa fær. Uppskriftin sem hún gefur fyrir þá er að smákökum - eiginlega súkkulaðibitakökum - með gúmmíböngsum. Ég held ég sé ekkert að rekja hvernig konan fetar sig yfir að þeirri uppskrift.
Ég held þetta sé ekkert voðalega marktæk bók um útfararsiði og -mat um heimsbyggðina. Þá er nú meira að marka þá ágætu bók Being Dead is No Excuse, sem er að vísu bara um erfidrykkjuveitingar í Suðurríkjum Bandaríkjanna.