(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

23.4.05

Kvöldmaturinn var eiginlega samtíningur, ein önd og ein andabringa sem fundust í frystigeymslum og svo afgangar af tómatréttunum frá því fyrr í dag. Og brúnaðar kartöflur handa Boltastelpunni, sem gæti örugglega hugsað sér að lifa á þeim eintómum. Mamma hennar spurði hana hvort hún mundi kjósa ef hún ætti að velja um að hætta að spila sinn elskaða fótbolta eða fá aldrei aftur brúnaðar kartöflur og stúlkan var fljót að svara því að hún mundi slaufa fótboltanum fyrir kartöflurnar.

Gressingham-öndin var annars mjög fín þótt hún hafi verið í líklega hálft annað ár í frosti og börnin borðuðu hana meira að segja; Boltastelpan bað mig þó að taka ,,ógeðið" af henni - það var hamurinn. Ég gufusteikti hana í ofninum og penslaði hana svo með blöndu af púrtvíni, hunangi og sojasósu og brúnaði hana.

Ég átti súkkulaðifondue í ísskápnum - svona sem maður kaupir tilbúið í leirskál og hitar - og bar það fram á eftir ásamt jarðarberjum. Sauðargæran elti mig fram í eldhús, ljómaði allur þegar hann sá hvað ég tók úr ísskápnum og spurði ,,er þetta súkkulaði sem maður bakar?" - hann hefur nefnilega fengið svona áður. Gekk líka rösklega fram við fondueátið og endaði eiginlega með allt niðurandlitið þakið súkkulaði. Þarf að setja inn myndir sem ég tók af honum við tækifæri.

|

Ég var að elda úr kirsiberjatómötum áðan fyrir myndatöku. Verkefni fyrir Sölufélagið, ekki Gestgjafann. Sex kirsiberjatómataréttir (tómatabrauð, smábökur með kirsiberjatómatafyllingu, salat með kirsiberjatómötum í balsamediki, bakaðir kirsiberjatómatar með hvítlauk, súrsætir kirsiberjatómatar og kirsiberjatómatar fylltir með guacamole. Efnafræðistúdentinn var mun kátari með þetta heldur en gúrkurnar um daginn.

Hvort segið/skrifið þið annars kirsu- eða kirsiber? Mér finnst kirsiber miklu fallegra orð.

|

Maður rekst nú stundum á sérkennileg orð á ýmsum síðum á netinu sem hafa orðið til fyrir misskilning, samanber t.d. afbrigðisemi í staðinn fyrir afbrýðisemi og karteflur í staðinn fyrir kartöflur. Eða þegar sagt er víst í staðinn fyrir fyrst (,,víst ég er að fara þangað, þá ...").

Eitt fyndnasta dæmið sá ég samt áðan: ,,Tindamamma mín".

|

22.4.05

Við efnafræðistúdentinn vorum bæði búin snemma í dag og fórum saman á bæjarrölt í vorveðrinu. Byrjuðum reyndar á kaffihúsi, fórum svo í Bókavörðuna þar sem við keyptum tvær bækur (ekki matreiðslu!) og eina vinylplötu, síðan í Mál og menningu þar sem ég las grein eftir Anthony Bourdain í Gourmet, og enduðum svo í Bónus að kaupa í kvöld- og helgarmatinn.

Á leiðinni upp í Bónus rákumst við á Stefán Pálsson á hlaupum. Ég hélt fyrst að hlaupin tengdust væntanlegri mannkynsfjölgun hans en sá svo að það stóðst ekki þar sem hann stefndi hvorki heim til sín né á fæðingadeildina. Hann kallaði ,,þetta var rétt hjá þér!" án þess að stoppa. Ég vissi svosem við hvað hann átti en efnafræðistúdentinn kom af fjöllum. Sem var nú óþarfi því að hann á að vita að móðir hans hefur alltaf rétt fyrir sér.

|

21.4.05

Nú er komið á daginn að nettengingin er nákvæmlega jafnóstöðug og hún var áður en routerinn fór í ,,viðgerðina". Efnafræðistúdentinn, sem þarf að byrja frá byrjun að downloada glósum (tekur minnst klukkutíma) af því að sambandið slitnaði er ekki glaður. Ég minnti hann á að hann sagði mér frá því í dag að það væri útsala á kalíumcyanídi í efnabúðinni. En það er nú kannski fullróttæk aðgerð ...

|

Þrjátíu og tvær pönnukökur voru ekki lengi að hverfa ofan í börn, tengdason og barnabörn. Sjálf lét ég þrjár duga. Ég bauð upp á rjóma, rabarbarasultu, jarðarberjasultu, apríkósusultu, hindberjasultu, hlynsíróp, hrásykur og venjulegan sykur með en auðvitað vildi Sauðargæran bara pönnukökur með engu.

Hann færði mér poka af Blue Mountain-kaffi í sumargjöf. Ég held að hann hafi verið mjög sáttur við Grimmsævintýrin og auðvitað fletti hann upp á úlfinum og kiðlingunum sjö. Hann hafði samt enn meiri áhuga á fuglinum Griffin og tilkynnti mér hvað eftir annað glottandi að þetta væri vondur fugl. Sá líka sjóræningja og ræningja á annarrihverri mynd í bókinni.

Mér finnst alltaf merkilegt þegar er verið að ritskoða sögur og ævintýri, gera vondu stjúpurnar og illmennin skárri en þau eru og draga úr refsingunum. Einhvern tíma las ég sögu þar sem vonda stjúpan í Mjallhvíti var nánast bara sett í skammarkrókinn, held að hún hafi verið rekin úr landi eða eitthvað slíkt. Í útgáfunni sem ég las þegar ég var lítil var hún látin dansa á glóandi járnskóm þar til hún datt niður dauð. Í seinni tíma útgáfu var bara sagt að hún hefði fengið ,,makleg málagjöld"; mér fannst einmitt þegar ég var sex ára að það væru makleg málagjöld fyrir slíka kerlu að dansa á glóandi járnskóm.

Annars hefur mér alltaf fundist farið frábærlega vel með örlög vondu stjúpunnar í Disney-teiknimyndinni um Mjallhvíti, þar sem hún steypist fyrir björg og svo sjást bara hrægammarnir hnita hringi með glott á goggi og glampa í augunum.

|

Gleðilegt sumar. Og þakka fyrir veturinn.

Boltastelpan (sem gisti í nótt) er farin í bili, ætlar að sjá Sveppa frænda sinn leika Kalla á þakinu í Borgarleikhúsinu. En hún kemur í pönnukökur á eftir.

Ég keypti bók með nokkrum Grimmsævintýrum sem ég ætla að gefa bróður hennar í sumargjöf. Hann verður örugglega hrifinn af sögunni um úlfinn og kiðlingana sjö. Hann er mikið fyrir sögur af vondum úlfum. Og er hættur að taka fram að hann sé sko góði Úlfurinn. Vondir úlfar eru spennandi, góðir ekki.

|

20.4.05

Efnafræðistúdentinn þurfti ekki að lemja neinn. En það munaði litlu.

Þegar hann kom að sækja routerinn var hann rukkaður um tæpan þúsundkall. Hann spurði hvort tækið væri ekki í ábyrgð. Jújú, það er í ábyrgð en það hafði ekkert verið bilað, það þurfti bara að opna það og breyta einhverri stillingu og slíkt fellur ekki undir ábyrgð. Hann benti manninum á að tækið hefði þá væntanlega verið með selt með vitlausum stillingum frá þeirra hálfu, ekki hefðum við verið að breyta stillingum og þar af leiðandi hlyti það að vera þeirra mál að sjá um að það væri í lagi. En það var alveg sama. Stilling er ekki viðgerð, sögðu þeir, og þar af leiðand á að borga fyrir hana. Alveg sama þótt þurfi að fara inn í tækið til að breyta stillingunni.

Þar sem efnafræðistúdentinn var ekki með peninga á sér (og ég var netsambandslaus heima og hefði ekki getað millifært á hann) munaði engu að hann yrði að snúa burt router-laus en á endanum féllust þeir á að senda reikning seinna. Sem mér finnst að ég eigi ekki að borga. Kannski ég hringi í Neytendasamtökin.

|

Ég var að skila inn plani um sumarfríið mitt, tímabært að gera það á síðasta vetrardegi. Ég ætla að vera í fríi í maí, júní, júlí og ágúst. Reyndar ekki samfellt ... Svona er að eiga erfitt með að gera upp hug sinn, ég ákvað að taka bara nokkra daga hér og nokkra þar. Skrepp eitthvað út fyrir landsteinana, fer norður allavega einu sinni, og nota svo afganginn af fríinu til að skrifa eitthvað. Ennþá óvíst hvað, ég er með svo mörg verkefni í gangi eða í bígerð að ég lýk örugglega aldrei neinu þeirra.

En ég er samt hætt að þusa yfir helvítis sumarfríinu sem truflar vinnuna hjá mér eins og kom fyrir að ég gerði hér áður fyrr.

|

Við erum netlaus á Kárastígnum þessa stundina því að ég sendi efnafræðistúdentinn með routerinn í viðgerð í gær. Hann á að ná í hann í dag og hefur fyrirmæli frá mér um að lemja einhvern ef hann er ekki tilbúinn. Það er nú ekki líkt friðsemdarmanneskju eins og mér að hvetja til misþyrminga en ég var orðin pirruð á ástandinu. Og það er lokað á morgun þannig að ef ekki er búið að gera við tækið verðum við netlaus fram á föstudag að minnsta kosti.

Það er semsagt sumardagurinn fyrsti á morgun og að venju verður boðið upp á kaffi og pönnukökur á blárósóttum diski á Kárastígnum. Engin tilraunastarfsemi í gangi þar, sumum hefðum breytir maður ekki.

|

19.4.05

Já, og það er líka vitatilgangslaust að biðja um uppskriftir að grilluðu tófú eða sojakjöti. Been there, done that.

- Vegna spurningar frá svp: Ég held að þegar fólk talar um sojakjöt eigi það yfirleitt ekki við tófú, heldur við þurrfóðursköggla úr sojamjöli sem á útlensku kallast TVP (textured vegetable protein) og eru gjarna notaðir í staðinn fyrir kjöthakk, aðallega í pottrétti og svoleiðis. En þetta er ekki mitt sérsvið og áreiðanlega einhverjir sem vita betur.

|

Það er alltaf viss léttir sem fylgir því að skila blaði í prentsmiðju. En svo tekur bara nýtt við og nú er það grillblaðið. Ekki alveg kannski grillveður núna, ekki miðað við það sem sést út um gluggann minn, en hver veit hvernig það verður eftir eina eða tvær vikur, þegar við þurfum að fara að setja kraft í eldamennskuna. Ekki þar fyrir, veðrið hefur ekki alltaf verið árennilegt þegar grillblaðið er í vinnslu; einhvern tíma man ég að við þurftum að gera hlé á myndatöku á svölunum hjá mér vegna éljagangs.

En ég ætlaði reyndar að spyrja: Er einhver með ábendingar/óskir/hugmyndir/umkvörtunarefni varðandi grillblaðið? Þá er vettvangurinn til að koma því á framfæri nákvæmlega hér. Það er náttúrlega ekkert víst að mark verði tekið á því en þó er það aldrei að vita.

Það þýðir samt ekkert að koma með óskir um grillað pasta. Ég er þegar búin að lýsa því yfir að ég taki ekki þátt í slíku.

|

18.4.05

,,Sojakjöt og sojamjólk er draumur allra kvenna"????

Speak for yourself, Steingerður!

|

Ruslpóstur er ekkert sérstaklega skemmtilegur en samt er eitt og eitt sem ég rekst á í forstofunni sem ég tek með upp og skoða. Mestallt læt ég þó óhreyft eða set í stóran kassa sem stendur þarna niðru og er sérstaklega hafður til að safna í ruslpósti. Ég hendi samt aldrei neinu þangað sama dag og það er borið út því að hvað veit ég nema nágrannar mínir hafi áhuga á að sjá hvað er verið að auglýsa?

En það hafa þeir reyndar greinilega ekki því að einhverjir þeirra eru afar duglegir við að taka allt upp um leið og því er fleygt inn um bréfalúguna og setja það í ruslpóstkassann. Of duglegir, satt að segja, því að þegar ég ákvað að tæma yfirfullan ruslpóstkassann í gær fann ég þar tvö blöð sem ég er áskrifandi að og voru tryggilega merkt mér en einhver hafði hent beint í kassann. Ég hefði skilið ef þetta hefðu verið þunnir bæklingar, héraðsfréttablaðið Feykir eða annað slíkt, en þetta voru 160 síðna útlend matreiðslublöð, plastpökkuð og alles, og ef ég hefði ekki fundið þau hefði ég orðið verulega fúl eftir nokkurn tíma, þegar ég áttaði mig á að blöðin væru ókomin, og örugglega kennt útgefendunum eða póstþjónustunni um allt saman.

Ég fann semsagt blöðin mín. En nú hef ég áhyggjur af því að ég hafi kannski áður tapað af einhverjum gagnmerkum póstsendingum vegna ruslpóstfjandskapar nágrannanna ... Það hefur komið fyrir einu sinni eða tvisvar að ég hafi ekki fengið blöð sem ég kaupi í áskrift. Kannski þetta sé skýringin.

|

17.4.05

Ég ætlaði að setja hér inn svör við ýmsu sem ég hef verið spurð að upp á síðkastið en það var svo margt sem tafði fyrir mér í dag að það verður að bíða til morguns.

Nýja uppáhaldið mitt: KEA-skyr bragðbætt með ástaraldins-engifersósu frá Morten Heiberg. Namm. En ég á eftir að prófa hinar sósurnar hans saman við skyr. Gæti trúað að það væri ekki síðra.

|

ADSL-tengingin mín er ekki sítenging um þessar mundir, heldur svona af-og-á-tenging eða happa-og-glappa-tenging. Þarf að fara á morgun og heimta nýjan router hjá Símanum, þessi er greinilega bilaður. Eða senda efnafræðistúdentinn.

En ég er allavega búin að komast að því að Recover post-fídusinn í Blogger virkar alveg. Eða gerði það allavega í gær þegar Blogger gleypti færsluna mína. Ég smellti bara á Recover post og viti menn, þar var hún.

Ég kom við í Bókavörðunni í gær og keypti nokkrar bækur hjá Braga. Ein þeirra var Amy Vanderbilt's Complete Cookbook. Ekkert sérstaklega merkileg matreiðslubók, held ég, en ég keypti hana aðallega út af myndskreytingunum. Þær eru reyndar frekar ómerkilegar, pennateikningar af kjötstykkjum, kökuformum, glösum, kökukeflum og þess háttar. En dálítið skemmtilegar samt. Og teiknarinn varð skömmu seinna frægur fyrir myndir af svipuðum viðfangsefnum en þó í öðrum stíl. Bókin kom út 1961, Andy Warhol byrjaði að mála súpudósir og þess háttar í desember það ár ef ég man rétt.

|