Þrjátíu og tvær pönnukökur voru ekki lengi að hverfa ofan í börn, tengdason og barnabörn. Sjálf lét ég þrjár duga. Ég bauð upp á rjóma, rabarbarasultu, jarðarberjasultu, apríkósusultu, hindberjasultu, hlynsíróp, hrásykur og venjulegan sykur með en auðvitað vildi Sauðargæran bara pönnukökur með engu.
Hann færði mér poka af Blue Mountain-kaffi í sumargjöf. Ég held að hann hafi verið mjög sáttur við Grimmsævintýrin og auðvitað fletti hann upp á úlfinum og kiðlingunum sjö. Hann hafði samt enn meiri áhuga á fuglinum Griffin og tilkynnti mér hvað eftir annað glottandi að þetta væri vondur fugl. Sá líka sjóræningja og ræningja á annarrihverri mynd í bókinni.
Mér finnst alltaf merkilegt þegar er verið að ritskoða sögur og ævintýri, gera vondu stjúpurnar og illmennin skárri en þau eru og draga úr refsingunum. Einhvern tíma las ég sögu þar sem vonda stjúpan í Mjallhvíti var nánast bara sett í skammarkrókinn, held að hún hafi verið rekin úr landi eða eitthvað slíkt. Í útgáfunni sem ég las þegar ég var lítil var hún látin dansa á glóandi járnskóm þar til hún datt niður dauð. Í seinni tíma útgáfu var bara sagt að hún hefði fengið ,,makleg málagjöld"; mér fannst einmitt þegar ég var sex ára að það væru makleg málagjöld fyrir slíka kerlu að dansa á glóandi járnskóm.
Annars hefur mér alltaf fundist farið frábærlega vel með örlög vondu stjúpunnar í Disney-teiknimyndinni um Mjallhvíti, þar sem hún steypist fyrir björg og svo sjást bara hrægammarnir hnita hringi með glott á goggi og glampa í augunum.