Við efnafræðistúdentinn vorum bæði búin snemma í dag og fórum saman á bæjarrölt í vorveðrinu. Byrjuðum reyndar á kaffihúsi, fórum svo í Bókavörðuna þar sem við keyptum tvær bækur (ekki matreiðslu!) og eina vinylplötu, síðan í Mál og menningu þar sem ég las grein eftir Anthony Bourdain í Gourmet, og enduðum svo í Bónus að kaupa í kvöld- og helgarmatinn.
Á leiðinni upp í Bónus rákumst við á Stefán Pálsson á hlaupum. Ég hélt fyrst að hlaupin tengdust væntanlegri mannkynsfjölgun hans en sá svo að það stóðst ekki þar sem hann stefndi hvorki heim til sín né á fæðingadeildina. Hann kallaði ,,þetta var rétt hjá þér!" án þess að stoppa. Ég vissi svosem við hvað hann átti en efnafræðistúdentinn kom af fjöllum. Sem var nú óþarfi því að hann á að vita að móðir hans hefur alltaf rétt fyrir sér.