(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

6.11.04

Það er eldspúandi dreki að brölta í kringum mig í sófanum. Eða ,,dreki með eld á munninn á sér" eins og hann lýsir sjálfum sér. Ég er nefnilega að passa Sauðargæruna á meðan foreldrar hans mála eldhúsið og það er að sjálfsögðu verið að horfa á He-Man.

Rétt áðan pikkaði drekinn í mig og tilkynnti ,,ég þarf að kúka". Ég held að ég hafi ekki lent í því fyrr að skeina eldspúandi dreka.

|

5.11.04

Ég sá endann á Law and order á Skjá 1 rétt áðan og þar var eitthvað minnst á ,,skyldubundna raddþjálfun fanga".

Ha? hugsaði ég. Eru bandarískir fangar skyldaðir í söngnám? Eða eru þeir kannski svona illa talandi og það er verið að meina talþjálfun?

En svo áttaði ég mig á því að saksóknarinn hafði ekki sagt ,,vocal training", heldur ,,vocational training". Sem er allt annar handleggur.

|

Ég er að skrifa pistil um hvernig eigi að fá stökka pöru á svínasteikina. Þetta hefur nú aldrei verið neitt vandamál fyrir mig - lengi framan af skildi ég ekkert í öllum þessum húsráðum um hvernig ætti að fá stökka pöru, hjá mér gerðist þetta ævinlega af sjálfu sér og ég hugsa að ég hefði átt í meiri vanda með að fá ekki stökka pöru ef ég hefði nú einhvern tíma þurft á slíku að halda.

Allavega, þá er ég búin að vera að skoða málið frá ýmsum hliðum og sjá alls konar ráð og leiðbeiningar. Mín aðferð hefur reynst mér alveg pottþétt og það eru engin trikk í henni, ekkert með að hafa kjötið á hvolfi í upphafi og sjóða pöruna, hella sjóðandi vatni á hana, smyrja hana með olíu, skera pöruna af og steikja hana sér eða neitt svoleiðis. Bara - svona í mjög stuttu máli - passa að það sé gott fitulag undir pörunni, passa að rista vel ofan í hana (ekki þó ofan í kjötið) með sentimeters millibili eða minna, passa að hún sé þurr en ekki hörð (gott að geyma kjötið óinnpakkað í ísskápnum og taka það út a.m.k. klukkutíma fyrir steikingu), núa grófu salti ofan í pöruna, hafa kjötið á grind og alls ekki í formi með háum hliðum (þetta er mjög mikilvægt) og hafa hitann háan (220-230°C) í upphafi, lækka hann eftir 20-30 mínútur. Þetta virkar allavega hjá mér. Svínvirkar, svo að ég tali nú í vel slitnum klisjum.

Það er svosem til efnafræðileg lausn á þessu líka. En ég ætla að fullvissa efnafræðinema um að ég beitti þessari aðferð ekki við svínslærin sem ég steikti ofan í þá á dögunum.

|

Ef ég ætti að mæla með bara einni matreiðslubók af þeim hreint ekki svo fáu sem ég hef eignast þetta árið, þá yrði það líklega - eða nokkuð örugglega - þessi hér. Og verðið er hlægilega lágt - Amazon.co.uk er að selja hana á 15 pund. (Minnir að hún kosti eitthvað á fimmta þúsund í Pennanum.)

En hún er augljóslega ekki fyrir grænmetisætur.

|

4.11.04

Þegar ég mætti í Ísland í bítið á dögunum að kynna súkkulaðibókina, þá sátu Nælonstelpurnar og Einar Bárðar í kaffistofunni fyrir framan sminkið og biðu eftir að fara í útsendingu.

Þegar við mættum þangað í morgun með kökublað Gestgjafans og gengum inn á kaffistofuna, hvaða fólk situr þá þar og á að fara næst á undan okkur í útsendingu? já, einmitt, Nælonstelpurnar og Einar Bárðar.

Er ég að verða einhver Alla allsstaðar?

|

Ég leit inn á málefnin.com áðan og sá þar fyrirsögn á einum þræðinum: Nakinn sýnifíkill!

Þið megið geta hver var sá fyrsti sem mér datt í hug.

|

Súkkulaði er hollustufæða, það hef ég lengi sagt. Nú er þetta að koma á daginn.

|

Við Sauðargæran settumst fyrir framan sjónvarpið í gær og þá var einmitt Road Runner á Cartoon Network. Drengurinn var mjög hrifinn af Wile E. Coyote og ekki minnkaði hrifningin þegar ég sagði honum að þetta væri sléttuúlfur, því að úlfar eru af eðlilegum orsökum í miklu uppáhaldi hjá honum. Og hann er líka mun meira fyrir vondu kallana og vondu dýrin en þau góðu.

Svo laumaðist ég til að skipta til að gá hvort Bráðavaktin væri ekki að byrja en þá var einmitt verið að sýna Kastljós. Drengurinn heimtaði að sjá sléttuúlfinn en þegar dómsmálaráðherra birtist á skjánum missti ég út úr mér að þarna væri sléttuúlfurinn.

Drengurinn var ekkert að rengja ömmu sína. Hann horfði bara á BB smástund og sagði svo:

- Þetta er góði sléttuúlfurinn. Ég vil sjá vonda sléttuúlfinn.

|

Æi, ég er þeirrar skoðunar að með ríkisstjórnir, forseta og þess háttar gildi sama og um eiginmenn: Maður fær það sem maður á skilið. Og hefur séns á að losa sig við mistökin. Séu þau færi ekki nýtt hefur maður við engan að sakast nema sjálfan sig. En það er nú einu sinni þannig að kona í niðurbrjótandi hjónabandi er oft seinust að átta sig á því sjálf og það þýðir ekkert fyrir aðra að reyna að benda henni á það.

Blogger var að stríða mér í gær, annars hefði ég kannski haft eitthvað meira um þetta að segja.

|

2.11.04

Af því að ég giskaði á Norfolk-eyju í getrauninni hjá Begga (tilgátan var röng), þá þurfti ég að glugga í matreiðslubók sem ég á frá þeirri ágætu eyju. Þetta er nú ekki sérlega þykk bók en á þremur síðum aftast er hægt að finna fáein orð og frasa á Norfolk-mállýsku. Maður gerir ráð fyrir að í svona lista séu tekin þau orð og frasar sem mest þörf er á að hafa á takteinum þegar maður kemur til Norfolk-eyjar.

Fyrsta setningin í listanum er þessi: Da lettle sullen se wylie up in ar pine. Sem þýðir ,,þetta litla barn er fast uppi í furutrénu þarna".

Hlýtur að vera algengt vandamál á Norfolk.

Svo er gott að vita að deffy þýðir ,,this way" og daffy þýðir ,,that way".

|

Og svo ætla ég bara að lýsa því yfir í eitt skipti fyrir öll að mér finnst bæði vitlaust og ljótt að skrifa fyrirfram og meðfram í tveimur orðum. Og dettur ekki í hug að gera það. Frekar umrita ég texta sem ég læt frá mér en að skrifa með fram.

Já, ég veit hvað stafsetningarreglurnar segja. Þær eru heimskulegar.

|

Við systkinin vorum að ræða það áðan að nú væri aldurinn farinn að segja gróflega til sín; við hittumst ekki öll fjögur nema við jarðarfarir.

|

Er eitthvert ykkar sem hefur klúðrað jólamatnum eftirminnilega eða lent í óhöppum eða eftirminnilegum atvikum tengdum honum og væri til í að segja frá því? Við erum að velta fyrir okkur að vera með slíkar sögur í jólablaðinu - ég sagði nú frá því í jólablaðinu í fyrra eða hitteðfyrra þegar ég litaði sósuna með jólasteikinni rauða og ég er viss um að ég þarf ekki að hugsa mig lengi um til að muna eftir öðru jólamatarklúðri. Ég er nefnilega einstakur klúðrari þrátt fyrir allt. Ein samstarfskona mín lenti í því fyrstu jólin sem hún bjó í útlöndum að ekkert var ætt nema eftirmaturinn og þannig mætti áfram telja.

Satt að segja gæti verið gaman að heyra sögur af alls konar eldhúsóhöppum og uppákomum, þær þurfa alls ekki að tengjast jólunum. Ég er viss um að það væri hægt að gera mjög skemmtilegt efni úr þessu, allavega finnst mér svona óhappa- og klúðursögur úr eldhúsinu oft alveg drepfyndnar. Ég þekki líka sjálfa mig svo oft í þeim.

|

1.11.04

Thai Choise?

Water cessnut?

Balsamic claze?

Sítrónan er týnd af plöntunni?

Les enginn uppskriftirnar hans Jóa Fel yfir áður en þær eru settar á netið?

|

Það sprakk vetnissprengja framan í efnafræðistúdentinn í dag eins og sjá má á hári hans og skeggi.

Nei, þetta er nú reyndar ekki svo slæmt. Mottan hefur að vísu greinilega látið á sjá en hárið ekkert að ráði þótt brunalyktin af því sé ótvíræð. Og til allrar hamingju var drengurinn með öryggisgleraugu.

|

Ég er afskaplega svag fyrir eldhúsáhöldum af ýmsu tagi og í öllum mínum utanlandsferðum skýst ég inn í búsáhaldaverslanir þar sem þær verða á vegi mínum og athuga hvort þær selja ekki dippidútta sem ég á ekki fyrir. En þetta hér vantar mig bara alls ekki. Það er ekki svo mikill vandi að skera brauð.

Ég man reyndar að ég sá einu sinni kokk á BBC reyna að sýna hvernig átti að nota tólið. Það tókst ekki vel, brauðsneiðin rifnaði og fór í mylsnu.

Þetta hér vantar mig ekki heldur. Enda er ég ekki vön að tárast mikið yfir laukskurði.

|

Ég fór að leita að fótboltaspaghettí á netinu af því að dóttursonurinn vill fá svoleiðis í jólagjöf. Og þegar ég gúglaði "soccer spaghetti" fékk ég meðal annars upp einhverjar frekar vafasamar síður. Fór reyndar ekkert inn á þær til að skoða þetta nánar en ég veit ekki alveg hvað drengurinn er að pæla. Um daginn var hann í pössun yfir helgi hjá hinni ömmu sinni og þar er til töluvert af gömlum barbídúkkum. Hann var heilmikið að leika sér með þær en svo kom í ljós að leikurinn fólst aðallega í því að færa þær úr fötunum.

Eins gott að femínistar frétti ekki af drengnum, þær gætu farið að smella límmiðum á hann.

|

31.10.04

Það er einhver frétt í sjónvarpinu um að íslenskar konur um fimmtugt eigi margar hverjar við syfju að stríða á daginn og það sagt orsakast af kvíða, þunglyndi og breytingaskeiðinu.

Ég er nú stundum syfjuð á daginn en það er þá vegna þess að ég hef vakað fram á nótt yfir sjónvarpi, bók eða vinnu. Eða einhverju öðru. Reyndar er ég töluvert farin að nálgast fimmtugt en er að mestu laus við kvíða, þunglyndi og ég tala nú ekki um breytingaskeiðið, því miður.

Allavega ætla ég að lýsa því yfir strax að ef ég verð geispandi oní pottana eða við skrifborðið á miðvikudaginn, þá verður það varla af því að ég sé skyndilega komin á breytingaskeiðið, heldur hef ég verið að vaka yfir forsetakosningum vestanhafs.

Ekki þar fyrir, það er ólíklegt að úrslit fáist í þeim fyrr en eftir nokkrar vikur. Týndir atkvæðaseðlar og allskonar vesen.

Lýðræði hvað?

|