PollýNanna
Þegar ég skreiddist fram úr í morgun og opnaði ísskápinn sársvöng rann upp fyrir mér að ég hafði steingleymt að kaupa mér eitthvað til að borða í morgunmat. En af manneskju að vera sem þoooolir ekki Pollýönnu og hefur aldrei gert get ég verið ótrúlega mikil pollýanna í mér svo að ég hugsaði: ,,nú, frábært, þá nota ég tækifærið og fer í blóðprufuna sem ég þarf hvort eð er að fara fastandi í" - steðjaði svo niður á Landspítala og skemmti mér við að láta stinga í mig nál og dæla úr mér slatta af blóði.
Svo þarf ég að panta mér tíma hjá hjartalækni. Og af því að ég er frekar svartsýn af bjartsýnismanneskju að vera (nema það sé öfugt), þá er ég viss um að hann sér strax að kransæðarnar eru svo stíflaðar að ég ætti að vera löngu dauð, hringir beint á sjúkrabíl og lætur leggja mig inn. En (og hér kemur bjartsýnis/pollýönnuelementið til sögunnar) þá náttúrlega er ég líka stikkfrí þegar kemur að flutningunum vestur á Bræðraborgarstíg. Mér leiðast flutningar.