Það eru næstum alltaf jólin
Jólin eru ábyggilega löngu komin í Ikea - en ég á sjaldan erindi í Ikea eftir að búðin var flutt út á land svo að ég hef ekki séð það enn. En hitt veit ég að þegar ég kom í Hagkaup í Skeifunni í dag mættu mér fyrst af öllu jólakúlur og skreytingar. Reyndar ekki búið að skreyta búðina en farið að selja skreytingar semsagt.
Og þegar ég kom heim og leit á tölvupóstinn beið þar þýðingaverkefni,
Tiger-bæklingur upp á 19 blaðsíður, þar af 16 jólatengdar. Þannig að ég verð að setja mig í jólaskap á næstu dögum.
Og í vinnunni í gær var ég að skoða kápuna af ítölsku útgáfunni á Röddinni eftir Arnald, sem var mjög jólaleg ... eða ekki, en það var allavega jólasveinn á henni.
Æi, já, og þegar ég kom heim í gær kveikti ég á sjónvarpinu og voru þá ekki jólin í Leiðarljósi og allir voða djollí og kátir og miklir vinir. Lásu jólaguðspjallið og allt.
Kannski maður ætti bara að bregða sér í Ikea.
Eða ekki.