Þau eru mörg vandamálin
Ég er með margrétta matarboð í kvöld. Og þar sem Boltastelpan tók ekki líklega í að vera gengilbeina hjá mér og ég þarf því að sjá um það sjálf að bera á borðið ætlaði ég, þegar ég var að dekka borðið áðan, að þverbrjóta allar reglur um að það eigi aldrei að vera fleiri en þrír hnífar hægra megin við diskinn og svo framvegis (já, ég sagði að þetta væri margréttað). Ég hef nefnilega reynslu af því að ef ég legg ekki öll hnífapörin strax, þá gleymi ég að setja þau sem ég sleppi þegar þar að kemur og gestirnir byrja að borða fiskinn með kjöthnífapörunum eða þaðan af verra. Sem er náttúrlega miklu pínlegra en ef maður leyfir sér að hafa fjóra hnífa (og eina súpuskeið) hægra megin. Liggur í augum uppi.
En svo mundi ég að ég sé að fá einn reyndasta þjón landsins í mat, meðal annarra. Það gengur náttúrlega ekki að ég eyðileggi orðspor mitt með svona grundvallarmistökum.
Þannig að ég verð bara að treysta því að ég muni eftir að setja fisk- og kjöthnífapörin á réttum tíma. Æ, æ.
Og svo kom næsta vandamál: Ókei, ég veit að þegar maður leggur deserthnífapörin fyrir ofan diskinn (eða á ská við efra vinstra hornið í þessu tilviki), þá eiga teinarnir á gafflinum að snúa til hægri. Allt í lagi með það. En hvort á að vera fyrir ofan, gaffallinn eða skeiðin? Það gat ég með engu móti munað. Svo að ég fór að lesa mér til og komst að því að gaffallinn á að vera fyrir ofan. Sem auðvitað var þveröfugt við það sem ég var búin að leggja. Nema hvað.
Og þegar ég var að lesa mér til um þetta allt saman rakst ég á ýmsa gullmola, til dæmis þennan: ,,If there is not a fish course then don't put out the fish forks and knives."
Jahérna. Eins gott að hafa það á hreinu ...
Nei, ég er eiginlega ekkert byrjuð á þessum tíu réttum. Þeir eru aukaatriði. Kaffið verður allavega ágætt, einkasonurinn kom í gærkvöldi með poka af Vilcabamba frá Ekvador.