Barnlaus á barnum
Við mættum náttúrlega á Vínbarinn í gær um leið og var opnað. Það liggur einhvernveginn beint við þessa dagana. Sátum lengi á spjalli við Völu í GV (hún er náttúrlega ekki lengur í GV en verður samt áfram Vala í GV, hvað sem hún segir sjálf). Ég var ekki með Sauðargærunan núna þannig að hvítvínsglösin urðu þrjú. Ekkert pepsí.
Hittum allavega þrjá Eiríka, þar á meðal Eirík Jónsson, sem kvaðst aðspurður ekki vera að koma til starfa hjá Fróða. Annars var fámennt þarna, kannski út af einhverju boltasparki. Samt er búið að setja upp sjónvarp á staðnum og einhverjir voru niðri að horfa á leikinn. Ég veit samt ekki hvernig hann fór. Come to think of it, þá veit ég heldur ekki hverjir voru að spila. Fótboltaáhugaleysi mínu er viðbrugðið.
Eftir rúmlega fjögurra tíma setu á Vínbarnum vorum við orðin svöng og færðum okkur yfir á Galileo, þar sem við þurftum að bíða svo lengi eftir pizzunum okkar að við vorum eiginlega orðin södd af brauðáti. Bjartsýnismaðurinn í hópnum pantaði samt eftirrétti þrátt fyrir eindregin mótmæli mín. Þau byggðust bæði á mati á mettunarstigi viðstaddra og reynslu af eftirréttum á Galileo. Ég hafði auðvitað rétt fyrir mér. En pizzurnar voru ágætar.
Svo enduðum við náttúrlega á Vínbarnum, þar sem ég fékk mér vatnsglas og var komin heim um miðnætti.