Fyrsta barferðin
Það var úrskurðað í vinnunni í hádeginu í dag, eftir miklar umræður og bölsýnistal, að það væri bara ekkert í stöðunni nema að fara á Vínbarinn um leið og hann opnaði. Ég studdi þá tillögu eindregið eins og ævinlega þegar slíkar tillögur koma upp. Áttaði mig svo á að ég hafði steingleymt að ég hafði lofað að líta eftir dóttursyninum nokkra stund á meðan systir hans útskrifaðist úr Vesturbæjarskóla. Ekkert mál, ég lét bara koma honum til mín á Vínbarinn ... Foreldrar hans létu þess getið að þetta væri í fyrsta sinn sem þau skutluðu syni sínum á bar og skildu hann þar eftir.
Drengurinn fékk svo pepsíglas á meðan ég kláraði hvítvínsglasið mitt og síðan tókum við strætó inn í Kringlu, þar sem ég átti erindi. Hann stakk upp á að við fengjum okkur eitthvað að borða á McDonalds og ég samþykkti eins og hver önnur amma. Síðan fórum við heim til mín þar sem hann fékk að horfa á He-Man.
Hann var hæstánægður með daginn.