Bjargvætturinn
Þessi færsla er ekkert um nýjan aðalritstjóra hjá Fróða. Hún er um allt annan bjargvætt.
Úr samræðum okkar dóttursonarins í Borgarfirðinum í gær:
Sauðargæran: -Það er rosalega stór klifrigrind á Hagaborg. Hún nær nærri því út í geiminn.
Amman: -Vá, út í geiminn? Þið þurfið þá að passa ykkur að klifra ekki of hátt og týnast í geimnum.
Sauðargæran: -Við gerum það ekkert. En klifrigrindin nær sko alveg upp í himininn svo að það er dökkblátt efst.
Amman: -En ef þið klifrið samt of hátt, þá þurfið þið sko að passa ykkur.
Sauðargæran: -Nei, amma, ef krakkarnir klifra of hátt í klifrigrindinni, þá kem ég og bjarga þeim.
Amman: -Þú?
Sauðargæran: -Já, manstu ekki, ég er ofurhetja. Svo að ég get fljúgið og náð í þau. Ég fljúgi sko með einum hnefa (kreppir hnefann og teygir handlegginn fram til að sýna). -Ég er Súpermann!
Amman: -Æi, já, því gleymdi ég.
Sauðargæran: -Og svo tek ég sögina og saga ofan af klifrigrindinni svo að hún nær ekkert upp í himininn þar sem er dökkblátt og krakkarnir fara ekki of hátt.