Kjötfjallið
Ég grillaði lambakjöt í gær, fimm rétti. Tókst ágætlega. Eitthvað þurftum við nú að smakka á kjötinu, svona til að tékka á að allt væri í lagi. Svo kom fjölskyldan í mat og við borðuðum lambakjötið. Í miðri máltíð hringdi Gunna systir til að spyrja hvort hún ætti ekki að taka mig með í saumaklúbb. Það hafði nefnilega farið fram hjá mér að þetta væri kvöldmatarklúbbur. Og auðvitað var lambakjöt á borðum. Alveg ljómandi gott en ég hefði kannski gert því ögn betri skil ef ég hefði ekki verið búin að borða töluverðan slatta af lambakjöti þennan daginn. Og svo ekkert nema kjöt í næstu viku eins og ég nefndi í gær ... Ætli það verði ekki tómur fiskur í helgarmatinn hjá mér.
Það er annars aldeilis grillveður í dag. Veit ekki hvort það helst fram á kvöld en þá ætlum við Gestgjafastaffið að grilla saman heima hjá mér. Verst að kveikjan á grillinu bilaði í gær - eins gott að eiga til eldspýtur. Efast um að það dugi að nota brauðrist eins og var til umræðu í saumaklúbbnum í gær (neinei, ekki til að grilla, bara til að fá eld til að kveikja upp).
Annars kunna fyrrverandi reykingamenn, eins og við erum allar í klúbbnum nema ein, ýmis trikk til að kveikja eld í eldspýtnaleysi.