Skyndilega langar mig alveg obbosslega mikið í rabarbarasúpu með muldum hörðum kringlum.
Ég fæ hana víst ekki í kvöldmatinn.
Fær maður annars einhvers staðar harðar kringlur nú til dags? Einhvers staðar í Reykjavík, meina ég? Kannski fást þær út um allt, ég hef ekki athugað það af því að mér þykja linar kringlur ekkert sérstakar og síðast þegar ég gáði (það eru nokkur ár síðan) var bara hægt að fá linar alls staðar þar sem ég leitaði.
Og þegar ég nefni kringlur dettur mér alltaf í hug vísa sem ég lærði þegar ég var mjög mjög ung (fyrir þá sem skilja ekki samhengið, þá eru kringlur og hagldabrauð sama fyrirbærið):
Magnús minn á Hofdölum
býr með henni Gunnu.
Hann er eins og hagldabrauð
hringlandi í tunnu.
Linar kringlur hringla náttúrlega ekkert þótt þær séu settar í tunnu, svo að þær virka augljóslega ekki. Það er samt ekki ástæðan til þess að ég vil þær ekki.