Ég nenni eiginlega allt of sjaldan að elda handa mér einni núorðið. Sem er náttúrlega ekki nógu gott þegar maður er frægt matargúrú og allir halda að það sé alltaf standandi veisla hjá mér, en sannleikurinn er sá að ég fékk mér flatbrauð með rúllupylsu í kvöldmatinn. (Ekki að neitt sé við flatbrauð með rúllupylsu að athuga, þannig séð. Afbragðsmatur. En maður verður að passa upp á orðsporið.)
Ég kem oft frekar þreytt heim úr vinnunni þessa dagana og þá er það einhvern veginn ekki alltaf fyrirhafnarinnar virði að elda bara handa mér. Ég þarf greinilega að gera eitthvað í málinu og eftir mikla umhugsun (í heilar fimm mínútur) er ég komin að þeirri niðurstöðu að hér sé tvennt í stöðunni. Þá er ég ekki að meina að ég eigi um tvo möguleika að velja, neinei, þetta verður að fara saman. Ég verð að fara að vinna minna og ég verð að finna mér kall.
Ef ég finn mér kall hef ég einhvern til að elda fyrir og þá nenni ég því alveg. Og kallinn tekur einhvern þátt í rekstrinum á húshollingunni (eða ég ætlast allavega til þess) þannig að ég hef efni á að vinna minna og hef tíma til að elda oní hann. Málið leyst.
Nú þarf ég bara að finna kallinn. Tek samt fram að ég er ekki að lýsa eftir honum hér og nú. Það er fullreynt að það þýðir ekkert að auglýsa eftir karlmanni á þessum vettvangi. Ég er búin að gera það margoft og hef engin viðbrögð fengið. Alveg sama hvort ég hef auglýst eftir karlmanni til alhliða brúks, öldruðum milljónamæringi, lagtækum handverksmanni, pípara eða gæsaskyttu.
Eða jú, mér var annars boðin gæsaskytta einu sinni. En bara að láni og það var ekki einu sinni á gæsaveiðitímanum. Lítið gagn í svoleiðis.
Ég þarf greinilega að leggjast undir feld og hugleiða þetta nánar.