Ég kom við hjá gagnlega barninu áðan. Dóttursonur minn var ekki heima og hafði síðast sést ganga út götuna í fylgd fjögurra vörpulegra Króata. Mér leist ekki alveg á þetta. Síst af öllu þegar Króatarnir tíndust aftur til baka, einn af öðrum, en ekkert bólaði á drengnum.
Hann kom þó á endanum og lýsti fyrir mér með tilþrifum miklum flugdreka sem hann og föruneyti hans höfðu verið að senda á loft á Landakotstúninu. Þessi flugdreki var víst bæði eldspúandi og risastór en endaði þó á að festast uppi í tré. Ég gleymdi að spyrja hvernig hann hefði losnað, kannski einhver Króatanna hafi prílað upp eftir honum.
Svo sagði drengurinn mér að í gærmorgun hefði hann horft á sjónvarpið og séð dauðan mann í litlu tréhúsi og góða og vonda menn með sverð. Væntanlega jarðarför páfans. Ég veit aftur á móti ekki hvort hann var nokkuð að horfa á konunglega brúðkaupið í morgun. Sennilega ekki, þar var líklega enginn með sverð.