Ég kom nú ekki heim með margar nýjar bækur í þetta skipti. What Einstein Told His Cook 2 og The Cook's Companion sem ég keypti í London og Piemonte in bocca sem mér var gefin á Ítalíu og er á þremur tungumálum, ítölsku, piemontísku (ókei, ekki sérstakt tungumál en sýnist samt býsna ólík ítölsku, risotto con asparagi er t.d. risot con sparr á piedmontísku) og fremur undarlegri ensku, þýðingin greinilega gerð af einhverjum sem ekki er allt of fær í því tungumáli (dæmi: Clean the frogs, get off the entrails and put the frogs into the cold water with vinegar for all the night). Og ein eða tvær bækur í viðbót.
Aftur á móti keypti ég mér slatta af misgagnlegum eldhúsáhöldum, þar á meðal laukhakkarann sem ég minntist eitthvað á hér fyrir ekki svo löngu - eftir að hafa skoðað hann betur og sannfærst um að þetta væri hið mesta þarfaþing ef hann virkaði eins og hann á að gera. Og það gerir hann reyndar. Og sérstakt tæki til að skera hvítlauk í sneiðar (ég átti fyrir þartilgert tól en þetta var allt allt öðruvísi svo að ég þurfti náttúrlega að eignast það líka). Og eggjastappara í hænulíki (hægt að stappa með honum kartöflur líka, stóð á umbúðunum). Og leka koparkönnu sem ég keypti á Gran Balon antíkmarkaðnum í Tórínó. Og afar gagnlega mælikönnu sem er þannig innréttuð að maður sér hve mikið er í henni þótt maður horfi beint niður í hana en ekki frá hlið. Og eitthvað fleira.
Ég keypti hinsvegar engan fatnað, það er að segja ekki á Ítalíu - það vantaði ekki að ég sæi fullt af ferlega flottum flíkum en þær voru annaðhvort ekki í mínum verðflokki eða mínu númeri, nema hvorttveggja væri. Eða jú, hellingur af flottum flíkum í mínu númeri en fatastærðakerfið sem Ítalir nota er ekki alveg það sama og hér ...