Við efnafræðistúdentinn borðuðum vöfflur með bláberjum og rjóma í kvöldmatinn.
(Þetta er ekki algengur kvöldmatur hér á bæ en hvorugt okkar var mjög svangt og það voru til bláber og rjómi og hlynsíróp).
Efnafræðistúdentinn tekur næstsíðasta vöffluhjartað á diskinum sínum, sem hann hefur smurt vandlega með rjóma og hlynsírópi, hrúgar bláberjum á það af mikilli kostgæfni og ber það að vörunum. Um leið og hann opnar munninn hrynja næstum öll bláberin af vöfflunni ofan á diskinn.
Móðirin tístir af hlátri.
Efnafræðistúdentinn: -Ég þoli þig ekki.
Móðirin: -Jú, það gerirðu.
Efnafræðistúdentinn: -Hrmpfh.
Móðirin fær hláturskast.
Efnafræðistúdentinn: -Þetta var nú ekki svona fyndið. (Tekur síðasta vöffluhjartað, hrúgar á það bláberjum, opnar ginið áður en hann lyftir því og skellir því í sig af þvílíku offorsi að bláberin fá ekki ráðrúm til að hrynja.)