Aðeins meira um nöfn, það er að segja nafnið á efnafræðistúdentinum. Hann er sæmilega sáttur við það að ég held, nema að einu leyti: Hann fullyrðir að með nafngiftinni hafi ég gjörsamlega komið í veg fyrir að hann muni nokkru sinni ná frægð og frama á erlendri grund, þar sem enginn útlendingur komist nálægt því að geta borið nafnið hans rétt fram. Eða borið það fram yfirleitt. Sem er sjálfsagt rétt. Hj-hljóðið í upphafi er nægur tungubrjótur fyrir flesta og óraddaða l-ið ræður varla nokkur maður við.
Ég stakk upp á að hann notaði þá bara Rögnvaldarnafnið þegar hann færi að leggja drög að heimsfrægðinni. Það féll ekki í góðan jarðveg. Og Nönnuson er víst ekkert heppilegt ættarnafn heldur í útlöndum.
Ekki þar fyrir, ég á í nægum erfiðleikum sjálf með mitt nafn, og þá er ég ekki að tala um föðurnafnið. Nanna er nafn sem margir útlendingar - einkum enskumælandi - eiga bágt með að bekenna sem skírnarnafn.