Ég var eiginlega búin að gleyma að þetta er löng helgi; þess vegna tókst mér hálfpartinn að sameina bæði plönin sem ég var búin að gera. Málaði eldhúsið og lauk við það seinnipartinn í gær, sem þýðir að ég get legið í leti afganginn af helginni.
Reyndar hef ég verið að dunda mér við það í dag að yfirfara og vírushreinsa tölvuna, það voru einhverjir leiðinda trójuvírusar að stríða mér en ég held að ég hafi losnað við þá. Kemur í ljós. Og á milli er ég að lesa Scandal Takes a Holiday eftir Lindsey Davis.
Svo bíða tvær vænar Gressingham-endur frammi í eldhúsi og eiga að fara í ofninn á eftir. Ég sagði víst í útvarpsviðtali á föstudaginn að ég ætlaði að hafa grillað lambalæri um helgina og það var líka planið, ég var komin með það í innkaupakerruna í Hagkaupum þegar gagnlega barnið minntist á endurnar sem ég geymdi í frystikistunni hennar. Ég ákvað að gera mig að ósannindamanneskju og skilaði lambalærinu aftur. Það bíður betri tíma. Ég er hins vegar ekki alveg búin að ákveða meðlætið, langar í nýuppteknar kartöflur ofnsteiktar í andafeiti með rósmaríni og timjani en það gæti verið over overkill. Kannski ofnsteikt grænmeti - ég man að ég á gulrætur, hnúðkál, gulrófu, kartöflur og rauðlauk, það er nú ekki slæm blanda.