Það tókst að vígja nýju pikknikkörfuna með Heiðmerkurferð áðan en þó naumlega, það fór að rigna þegar við vorum að keyra heim. En það var þurrt og fremur hlýtt á meðan lautarferðin stóð yfir. Við Boltastelpan smurðum úrval af samlokum en létum það duga þar sem fyrirvarinn var stuttur. Sauðargæran fékk sér flatbrauðssamloku með taðreyktum silungi, beit í hana og sagði: ,,Ha? Fiskur á brauðinu mínu!" - en var svo hrifinn að hann endaði með að fá sér aðra eins. Pissaði svo í koppinn sem er nauðsynlegt að taka með núna í svona ferðir. Sjón að sjá okkur þar sem við röltum um með stóra og flotta enska pikknikkörfu úr tágum og skærgulan kopp.
Ég sat hjá þeim systkinum í aftursætinu og samkomulagið var misjaft - þegar verið var að spenna drenginn í bílstólinn sagði hann við móður sína: ,,Bíddu aðeins, ég þarf að bíta Heklu." Mamman var ekki alveg á því og þá beindist reiði hans að henni og hann tilkynnti: ,,Mamma, þú ert leiðinlegur!" (hugsun hans er mjög karllæg þessa dagana og það er talað um alla hluti í karlkyni) og bætti svo við: ,,Láttu mig hafa stein." Það fór ekkert á milli mála hvað átti að gera við steininn og hann fékk auðvitað engan. Lét sér nægja að lúskra systur sinni, sem tók hraustlega á móti.
Og ég sem er að fara norður með þeim á fimmtudaginn. Þarf að sitja í nokkra klukkutíma í aftursætinu með blessuðum barnabörnunum.