Þráinn Bertelsson er að skrifa um það í Fréttablaðið að það þurfi að hafa uppi á þeim fjölskyldum sem hafa komið óorði á fjölskylduboð, svo að allir séu núna farnir að trúa því að þau séu hundleiðinleg. Mér finnst fjölskylduboð afskaplega skemmtileg og er eindregin stuðningskona þeirra, hvar og hvenær sem er - NEMA ekki á jóladag. Alla aðra daga ársins. Á jóladag á maður að vera heima hjá sér, sofa fram eftir, borða kalt hangikjöt með laufabrauði og Ora grænum baunum og fá sér jólakonfekt með kaffinu. Á náttfötunum ef manni sýnist svo. Leika sér að jóladótinu eða lesa jólabækurnar. Ekki vera að klæða sig uppá og fara út í bæ. Svo er hægt að hafa jólaboð í lange baner á annan og hvern einasta jóladag eftir það, allt fram á þrettánda.