Jóladót og jólakræsingar
Ég held að ég hafi bara ekki fengið neitt í jólagjöf sem ekki tengist mat, drykk eða eldamennsku á einhvern hátt. Nema reyndar innrammaða mynd af eldra barnabarninu. Jú, svo er ein gjöf sem ég á að kaupa mér sjálf og það verður reyndar ekki eldhúsdót.
Og er ég eitthvað óhress með þetta? Óekkí. Bara alveg himinsæl. Fólk veit hvað mér kemur best. Fyrir utan eldhúsdót og matreiðslubækur á ég núna alls konar sælkeravörur og kaffi sem endist langt fram á næsta ár. Og eitthvað smávegis af víni líka.
Ég sá umfjöllun fyrir jólin um einhverja könnun þar sem kom fram að fólk fengi meira og minna tóman óþarfa í jólagjöf sem það væri ekkert alltof hresst með. Kannski, en það á allavega ekki við mig. Ég fæ alveg slatta af óþarfa, mikil ósköp, en ég er bara ljómandi ánægð með það sem ég fæ svo lengi sem það er eitthvað sem eyðist. Ekki eitthvað sem mig langar ekki í og tekur bara pláss. Það hefur ekki gerst lengi.
Jólamaturinn tókst bara alveg ágætlega, barnabörnin borðuðu náttúrlega ekki hamstrasúpuna fremur en við var að búast en þeim mun meira af andabringunum - ég held að ég hafi sjaldan séð Boltastelpuna taka jafnrösklega til matar síns - en svo var eftirréttinum (heitum súkkulaðikökum með tvenns konar súkkulaðiís) frestað þar til búið var að opna þá pakka sem hér voru - einn ungur maður var orðinn ansi óþolinmóður. En hann fékk líka fjarstýrt tryllitæki sem dreifði huganum eitthvað frá allri pakkahrúgunni sem beið hans svo heima hjá honum seinna um kvöldið.
Ég fór ekki úr náttfötunum í gær. Fjölskyldan kom í hangikjöt og laufabrauð upp úr hádeginu en barnabörnin komu á náttfötum innan undir yfirhöfnunum. Svoleiðis eiga jólin að vera.