Fáklædd og föst
Ég skrapp á útsölur í Kringlunni eftir vinnu í dag. Keypti mér tvennar buxur, ekkert vandamál þar. En svo sá ég topp í einni búðinni sem ég féll alveg fyrir. Hann var auðvitað ekki til í mínu númeri en reyndar í næsta númeri fyrir neðan. Svo að í einhverju bjartsýniskasti ákvað ég að máta hann (maður veit aldrei, kannski er þetta stórt númer - nema sniðið á þessum var reyndar þannig að ég hefði átt að gera mér grein fyrir því strax að svo var ekki).
Auðvitað sat ég föst í fjandans flíkinni í mátunarklefanum. Í einhverri afkáralegri stellingu með handleggina upp í loftið. Tók mig þónokkra stund að mjaka mér úr toppnum því auðvitað kunni ég ekki við að kalla á hjálp.
Samt ekki eins slæmt og þegar ég sat föst í kjólnum í Karnabæ um árið. (Það var þó mun minna númer ...) Þá var ég á tómri nærbrókinni og mun spéhræddari en ég er núna svo að ég hefði sennilega fyrr dáið en kallað á aðstoð. Ég var örugglega minnst tíu mínútur að komast úr þeirri prísund og afgreiðslustúlkan horfði mjög undarlega á mig þegar ég kom loksins út.
En ég slapp allavega. Á endanum.