Fiskur og fínirí
Það má búast við að fiskur verði mun oftar á borðum í matarboðum hjá mér hér eftir; ég keypti mér sérlega retró silfurhúðuð fiskihnífapör með gervifílabeinsskafti á ebay og einhverntíma þarf maður jú að nota djásnin ...
Fjölskyldan kom einmitt í mat eins og yfirleitt á fimmtudögum og ég gaf þeim steinbít maríneraðan í sítrónu- og límónusafa, ólífuolíu, engifer og kóríander og síðan steiktan á pönnu með smávegis af rækjum. Kartöflur, dvergmaís og sykurbaunir með. Súkkulaðibúðing (ekki Royal, heldur úr mascarponeosti, sýrðum rjóma, súkkulaði, flórsykri og vanillu) með bláberjum á eftir. Sauðargæran gerði honum lítil skil; vill heldur Royal.
Ég hef verið að segja við ýmsa á síðustu mánuðum ,,ég ætla að bjóða þér/ykkur í mat bráðum" og allir halda náttúrlega að ég hafi gleymt þeim af því að formlegt boð berst ekki - en nei, ég er bara að bíða eftir að eldhúsframkvæmdum ljúki, sem ætti nú að verða fljótlega. Þá fara matarboðin að skella á. Ég verð jú einhverntíma að nota ættarsilfrið.