Kjúklingasalat
Fyrst ég var að tala um salvíu í kommentunum hér áðan, þá er best að setja inn eina uppskrift. Þetta er fínt sumarsalat, t.d. til að bera fram á veröndinni eða fara með í sumarbústaðinn - það er hægt að bera það fram með góðu snittubrauði eða setja það á samlokur.
Kjúklingasalat með hnetum, trönuberjum og salvíu
2-3 kjúklingabringur, steiktar, bakaðar eða grillaðar
1/2 rauðlaukur
50 g pekan- eða valhnetukjarnar
50 g þurrkuð trönuber (eða ljósar rúsínur)
5 salvíublöð
100 ml sýrður rjómi, 18%
2 msk majónes (eða meiri sýrður rjómi en majónes er betra)
pipar
salt
Kjúklingurinn skorinn í litla bita. Rauðlaukurinn saxaður smátt og hneturnar grófmuldar. Salvíublöðin skorin í ræmur. Sýrður rjómi og majónes hrært saman og kryddað með pipar og salti. Öllu blandað vel saman.
Svo má líka blanda t.d. klettasalati saman við.