Malbornar minningar
Ég labbaði smávegis með dótturdótturinni og bróðursyninum um Krókinn í gær. Út að barnaskóla, þaðan út að Villa Nova og svo Aðalgötuna og Skagfirðingabrautina til baka. Með viðkomu í bakaríinu til að kaupa snúða með alvörusúkkulaði, sem hvergi fást betri.
Og það rann upp fyrir mér á leiðinni hvað Krókurinn var nú óskaplega ljótt pláss þegar ég var að alast þar upp og hvað hann hefur þó skánað.
Ég (á hundrað og átján stöðum á leiðinni): -Krakkar, vitið þið hvað var hér þegar ég var á ykkar aldri?
Krakkarnir í kór: -Möl og grjót.
Ég: -Og drullupollar.
Sumir sveipa víst bernskuslóðirnar einhverjum dýrðarljóma í minningunni. Ekki ég. Ekki Krókinn allavega. En hann er mun huggulegri núna, það skal ég alveg viðurkenna.