Nyjungagirni
Ég gat komist í tölvu hér í næsta húsi þannig að ég er ekki alveg sambandslaus við umheiminn. En mikið skrambi er maður háður þessu. Jæja, ég hef þá bara meiri tíma í kvöld til að pakka bókum niður í kassa og búa mig undir að byrja flutninga á sunnudaginn - ekki á laugardaginn eins og ég var víst búin að segja. Ætli ég reyni ekki að flytja einhverja tugi af bókakössum svona í fyrstu atrennu, það er alveg hægt að stafla þeim á mitt gólfið þótt eigi eftir að mála einhverja veggi. Húsgögnin geta svo farið síðar. Reyndar á ég ekkert voðalega mikið af svoleiðis og ætla auk þess að skipta um sumt og kaupa nýtt. Sófasettið til dæmis. (Og mottuna auðvitað.)
Óttaleg nýjungagirni er þetta í manneskjunni, gæti nú einhver sagt. Ný vinna, ný íbúð, nýjar mublur. Einhver var að spá mér nýjum kalli líka. Ég held ekki. Búin að sjá fyrir mjög mörgum árum hvað er auðvelt að komast af án svoleiðis. En vinnu og íbúð þarf maður að hafa, og helst einhverjar mublur líka.
Já, og svo er það víst ný tölva einhvern næstu daga. Var nú ekki á planinu, ég hélt ég ætti tölvu ... Ég er reyndar alvarlega að hugsa um að fá mér makka í þetta skipti.
Getur einhver annars útskýrt fyrir mér af hverju Blogger leyfir ekki íslenska stafi í titlinum á færslunum á þessari tölvu (sem er makki) þótt það sé ekkert vandamál á öðrum tölvum? Er eitthvað sem ég þarf að breyta?