Dót
Mér er lífsins ómögulegt að gera mig seka um þá stórsynd um þessar mundir að blogga (að því marki sem ég kemst til að blogga sökum tölvuleysis) um hvað ég ætla að hafa í kvöldmatinn vegna þess að það er enginn kvöldmatur hjá mér. Það eru tómir kassar á eldavélinni, fjallháir bókastaflar á borðstofuborðinu og föt, bækur, dvd-diskar og snýtubréf frá einkasyninum um allt stofuborðið og þessa stólgarma sen enn eru í stofunni svo að ég hef ekki einu sinni pláss til að borða pizzu ef ég skyldi panta hana.
Ég grenist þá bara á meðan.
Líf mitt er í rúst. Bókstaflega.
Þetta er nú allt í lagi samt. Einkasonurinn er búinn að lofa mér því að flytja mestallt dvd-safnið sitt af borðstofugólfinu inn í gamla herbergið sitt í dag (og það fer mjög illa fyrir honum ef hann stendur ekki við það) og þá get ég haldið áfram að pakka niður bókum og jafnvel byrjað á eldhúsáhöldum. Ég á nefnilega eiginlega bara tvennt: bækur og eldhúsdót. Jú, eitthvað af fötum og töluvert af óskilgreindu ,,dóti" sem mér hefur af einhverri ástæðu ekki tekist að losa mig við - en ég reyni. Ég ætla til dæmis að henda (eða senda í Góða hirðinn) ljótum bláum vasa sem er búinn að fylgja mér í 20 ár og hefur aldrei verið notaður - nei, annars, nú mundi ég eftir Guðnýju og áhuga hennar á ljótum vösum! Frábært, þá er það leyst.
Óskandi að allar mínar vangaveltur um hvað á að gera við hitt og annað dót leystust svona auðveldlega.