Ástarpungar og fleira gott
Kleinuhringirnir og hitt bakkelsið gerðu þvílíka lukku hjá vinnufélögunum; það er á hreinu að mín verður saknað eftir morgundaginn. Ritstjóri Bleiks og blás fékk samt enga ástarpunga eins og hefði þó verið passlegt - þegar hann kom voru stelpurnar á Nýju lífi búnar að gúffa þá alla í sig.
Ég er búin að útskýra fyrir Úlla, sem verður væntanlega aðalkokkur blaðsins þegar ég er farin, að lykillinn að vinsældum hjá fyrirtækinu sé að elda ætan mat og setja hann fram í kaffistofu um leið og búið er að mynda hann. En Úlli hefur ekki alveg náð þessu - jújú, maturinn er ætur en hann lætur uppvaskið ganga fyrir. Það hef ég aldrei gert mig seka um. Uppþvotturinn og frágangurinn getur beðið smástund, svangir blaðamenn ekki. Jæja, hann hlýtur að átta sig á þessu, drengurinn.
Eins gott annars að ég er að fara úr landi á laugardaginn því að eftir morgundaginn verður ekkert baðker hérna. En ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því, ligg í sérríbaði á fjögurra stjörnu hóteli í Jerez. Þar er núna sirka 28 stiga hiti.