Uppskriftaleysi
Ég er ekki fyrr byrjuð að kvarta yfir því að þurfa að pakka niður bókum en fólk streymir til mín að skila bókum sem það hefur haft í láni, ábyggilega bara til að fjölga kössunum hjá mér ...
Það lá hrúga af banönum frammi í kaffistofu áðan sem átti að fara að henda af því að þeir voru farnir að dökkna ansi mikið. Ég ákvað að bjarga meiripartinum af þeim og bakaði flennistórt bananabrauð við miklar vinsældir. Þeir sem þekkja mig halda kannski að ég sé þar með að spá rigningu en nei, ég var bara að bjarga banönum frá tortímingu.
Einhverjir voru að spyrja mig um uppskriftina en hún er ekki til. Eða það er að segja, hún er einhvern veginn svona: hrúga af ofþroskuðum banönum, slatti af smjöri, slatti af sykri (ekki mikið af þessu tvennu, þetta er frekar heilsusamlegt brauð), nokkur egg, skvetta af vanilludropum, hveiti eftir þörfum, eitthvað af kanel, eitthvað af lyftidufti. Bakað í stóru formi í 45-60 mínútur við sirka 170°C.
Nákvæmari get ég ekki verið. Ég man að hér áður fyrr var mér óskiljanlegt hvernig reyndar húsmæður gátu bakað nokkurn skapaðan hlut án uppskriftar og án þess að mæla. Núna baka ég flest það sem ég geri heima og er ekki að prófa fyrir Gestgjafann á þennan hátt. Það virkar venjulega fínt.