Svartsýni og bjartsýni
Ég er með einhverja fjandans hellu fyrir vinstra eyranu og er eiginlega heyrnarlaus á því þessa stundina. Sem væri allt í lagi ef mig verkjaði ekki svolítið í eyrað líka. Líklega er þetta einhver háskaleg sýking og ég missi heyrnina varanlega.
Nei, ég er ekki í bjartsýnisskapi í dag. Aldrei þessu vant.
Tengist samt ekkert vinnunni, einkalífinu, fjármálunum, afkomendunum eða veðrinu. Ekki kosningunum heldur, enda var ég búin að gleyma að þær eru á morgun. Þetta er bara almenn bölsýni. Eða kannski er ég bara svona af því að ég vildi miklu heldur vera enn úti í Alsace ...
Kannski ég hætti bara í vinnunni upp úr hádegi og hreiðri um mig á einhverju kaffihúsi. Vínbarinn mundi líka henta vel en þar er ekki opnað fyrr en fjögur - og svo hef ég engan að fara með. Bömmer.
Kosturinn við heyrnarleysið er aftur á móti sá að ég get bara snúið vinstri vanganum að öllum sem ég nenni ekki að hlusta á. (Það má samt ekki oftúlka þetta; ef ég sest hægra meginn við einhvern í hádegismatnum á eftir með lambasteikina mína frá Matborðinu þýðir það bara að það er næsta lausa sæti, ekki að ég vilji ekki heyra neitt sem viðkomandi hefur að segja.)
Og ef einhver hringir nú í mig til að hvetja mig til að kjósa einhvern get ég bara sett símann upp að vinstra eyranu.
Sko bara, eðlislæg bjartsýni mín og jákvæðni er strax farin að láta á sér kræla.