Exin
Kosningaáhugi minn er í sögulegu lágmarki þótt ég reikni með að drattast á kjördag á laugardaginn. Ég hef þar af leiðandi ekki orðið mikið vör við kosningabaráttuna. Ég fór samt að hugsa um það áðan, eftir að hafa verið að lesa um hringingar frá flokkunum á öðrum bloggum, að það væri merkilegt að enginn skyldi enn hafa hringt í mig (nei, ég er ekki að auglýsa eftir hringingum, ónei ...). En svo mundi ég eftir hringingum frá númerum sem ég kannaðist ekki við sem ég sá á númerabirtinum þegar ég kom heim í gær - já, og hringingunni sem ég fékk í miðri vínsmökkun hjá Paul Blanck, þegar ég var að drekka þetta æðislega gewurztraminer grand cru og láta mig dreyma um - ekki datt mér í hug að svara þeirri hringingu.
Þannig að ef exbé hefur hringt til að minna á sig, þá hef ég ekki svarað. En ég get alveg sagt það strax að ég ætla ekki að kjósa exbé. Svo að það er bara alveg óþarfi að hringja.
Aftur á móti var hringt í kvöld að spyrja mig um annað ex, það er að segja mann sem ég var einu sinni gift. Nánar tiltekið á hvaða skipum hann hefði verið á sínum tíma, eitthvað fyrir Skipstjóra- og stýrimannatal, skildist mér. Sénsinn að ég muni það, síðan eru meira en tuttugu ár og þetta voru nokkuð mörg skip.