Símatilboð
Það hringdi einhver stúlka frá Símanum í gær og var að bjóða mér alls konar kostaboð. Held að hún hafi nefnt að ég gæti valið mér einhver númer og talað við þau í fimmhundruð (eða var það þúsund?) mínútur á mánuði ókeypis og sent fimmhundruð SMS á mánuði frítt. Eða talað við eitthvert númer í útlöndum í klukkutíma á mánuði án endurgjalds og hvaðeina.
Ég lét mér frekar fátt um finnast; var svosem ekkert að útskýra það fyrir henni að manneskja með símafóbíu hefði nú lítið með svona að gera. Ég hringi sjaldan í aðra en börnin mín og foreldrana og tala þá yfirleitt frekar stutt. Ég hef einmitt árum saman verið með númerin þeirra skráð í einhverja sparileið þannig að ég fæ afslátt af símtölum við þau. Það er viðburður ef sá sparnaður fer yfir tuttugu krónur á mánuði (ég gáði einmitt á síðasta símreikning, þar er afslátturinn 10,53 krónur). Ég hringdi heil fjórtán símtöl úr heimasímanum í síðasta mánuði og talaði í tæpan klukkutíma alls og það kostaði tæpar 244 krónur. Sendi 20 SMS, þar af 17 frá útlöndum (ég sendi eiginlega aldrei SMS nema í útlöndum). Það kostaði tæpar 700 krónur.
Síminn er alltsvo ekki að græða mikið á símanotkun minni. Annað mál kannski með internetsambandið.
Aumingja stúlkan var alveg í vandræðum með hvað hún ætti að bjóða mér. Líklega ekki vön svona sérvitringum.