(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

2.3.07

Síldargafflar og kavíarskálar

Ég fékk tvo tölvupósta samtímis rétt í þessu. Annar var um að ég hefði ekki unnið silfurhúðuð salatáhöld sem ég var að bjóða í á Ebay - sem var bara hið besta mál því að þau fóru á hærra verði en ég var tilbúin að borga og auk þess er ég nýbúin að reka augun í önnur flottari sem mig langar meira í. Hinn var um að ég hefði unnið milljón evrur í hollenska ríkislottóinu. Ég er að hugsa um að láta bara leggja það inn á Paypal-reikninginn minn svo að ég geti haldið áfram að kaupa mér eitthvað fallegt á Ebay. Ég er nefnilega að bæta við ættarsilfrið þessa dagana.

Líklega einmitt kominn tími til að ég fari að vinna alminlega vinnu aftur. Hætti að hanga á Ebay og skoða silfurmuni. Hlakka samt til að fá í hendur það sem ég er þegar búin að kaupa, þar á meðal ósköp laglegan síldargaffal (herring server). Silfurhúðaðan með perlumóðurskafti. Það verður sko aldeilis serveruð síld hér á bæ þegar hann er kominn í hús ...

Svo náttúrlega bráðvantar mig flotta silfraða kavíarskál. Svona kúlulaga skál á þremur eða fjórum fótum sem er opnuð með því að renna efri hluta kúlunnar undir neðri helminginn ... Reyndar rifjaðist upp fyrir mér að slíkt þing var til á mínu bernskuheimili en ég held að það hafi enginn fattað að þetta var kavíarskál. Svo má nota þetta sem smjörskál líka ef kavíar er ekki daglega á borðum.

|

1.3.07

Nýtt hlutverk - en þó gamalkunnugt

Jæja, þá er ég aftur að skipta um starfsvettvang - eða í rauninni má segja að ég sé bara að hverfa aftur til fyrri starfa.

Nei, ég er ekki að fara aftur á Gestgjafann, heldur aðeins lengra aftur í tímann. Ég vann hjá bókaforlagi í sextán ár áður en ég færðist yfir í tímaritaútgáfuna (ekki að ég væri spurð hvort ég vildi það en ég hafði svosem ekkert sérstakt á móti því) og nú er ég að fara þangað aftur - ég byrja að vinna hjá Eddu í fyrramálið. Þar eru jú allar gömlu Iðunnarbækurnar ... já, og auðvitað matreiðslubækurnar mínar flestar.

Ég hætti á Gestgjafanum á sínum tíma m.a. vegna þess að ég var orðin hundleið á vinnunni og það var farið að sjást á því sem ég var að gera. Ég vildi fá tækifæri til að skrifa bækur og vinna að bókum. Samt hikaði ég ekki þegar mér bauðst að taka þátt í að móta Bístró; ég vissi að hugmyndir okkar Gísla Egils um hvernig matreiðslutímarit ætti að vera fóru saman og langaði að fá tækifæri til að hrinda þeim í framkvæmd. Það tókst vissulega; ég hef varla hitt nokkra manneskju sem ekki er hrifin af blaðinu og helst að einhverjir hafi talað um að það sé ,,of flott". Þótt ritstjórinn forfallaðist snemma og kæmi einungis að fyrsta tölublaðinu og fleiri áföll kæmu til tókst okkur samt að gera gott blað. Eða það finnst mér allavega. Reksturinn gekk samkvæmt öllum áætlunum og áskrifendur streymdu inn. En mennirnir áforma en Baugur ræður ...

Eníveis, þetta var skemmtilegur tími. Nema núna að undanförnu. En ég hlakka til að byrja á nýjum kafla.

|

Í tilefni af vaskslækkuninni ...

Ég rakst á gagnmerka heimild þegar ég var að tæma skrifstofuna mína; nefnilega heimilisbókhald sem ég hélt 20. febrúar til 30. júní 1995 og er mjög ítarlegt, þar er hver einasta króna talin sem ég eyddi á þeim tíma. Auk þess er tekið fram hvað er í kvöldmatinn á hverjum einasta degi. Svo dæmi sé tekið, þá eru hér útgjöldin 1. mars 1995, fyrir sléttum 12 árum:

Kjötloka 250
Langloka 220
Jógúrt 45
Skyr 38
Súkkulaði 65

(Líklega hefur einkasonurinn heimsótt mig í vinnuna þennan dag og framantalið er hádegismaturinn okkar.)

DV 150

Peysa 2380

Visareikningur:
Tryggingar 7000
ABR 1000
Regnboginn 1000
Rafmagn 1770
RÚV 2000
Morgunblaðið 1500
Good Book Guide 2756

útgjöld samtals 20.174, útborguð laun 99.406

Engin matarinnkaup þennan dag en í matinn voru fiskibollur, sennilega úr fiski sem til hefur verið í frysti. Það vill svo til að það verða einmitt líka fiskibollur í kvöldmatinn í kvöld, 12 árum seinna.

2. mars:

Léttmjólk x 3 192
Rjómaostur 223
Brauðostur 275
Nauta+lambahakk 389
Epli 149
Sveppir 102
Brauð 179
Matarkex 129
Kleinur 167
Neskaffi 240 (á maður að játa þetta á sig?)
Poki 8

Strætó 100

útgjöld samtals 2.192.

Matur: pasta með sveppum og rjómaostssósu

Spurning hvort ég ætti að byrja á þessu aftur? Gæti nú verið skemmtilegt að hafa samanburðinn.

|

Bond og Stúlkan frá Búdapest

Já, og í framhaldi af klámumræðunni á Hagþenkisverðlaunaafhendingunni í dag: Ég sé á IMDB að það var ekki bara Emmanuelle 8 sem þau Sylvia Kristel og George Lazenby léku saman í, heldur líka Emmanuelle 9, 10, 11, 12, 13 og 14 ...

Og af því að ég var við sama tækifæri aðeins að rifja upp Stúlkuna frá Búdapest, þá er smáágrip af upphafi myndarinnar hér.

|

28.2.07

Bjór, klám og sápuóperur

Ég fór á afhendingu Hagþenkisverðlaunanna í dag, er alltaf boðin þangað sem fyrrum verðlaunahafi. Þar var margt rætt (alltsvo ekki á afhendingunni sjálfri, heldur að henni lokinni). Meðal annars um bjór, klám og brasilískar sápuóperur. Undarlegustu menn reyndust merkilega fróðir um sápuóperur. Brasilískar sem aðrar.

Á eftir fór ég með bróður mínum og mágkonu á Sögu (nei, kom klámumræðum ekkert við) og dró svo Gunnu með mér á Ósushi og að lokum á Vínbarinn, þar sem við vorum einu gestirnir.

Annars bar fátt til tíðinda í dag. Maður sem ég ætlaði að hringja í hringdi í mig að fyrra bragði og annar sem ætlaði að hringja í mig hringdi ekki.

Já, og ég festi mér húsnæði fyrir væntanlega afmælisveislu. Meira um það seinna.

|

27.2.07

Barnsmóðir barnanna í heyrnarmáli

,,Barnsmóður tveggja barna sinna ..." hmm, ég vissi ekki að menn þyrftu að borga meðlag með barnabörnum sínum. Sem hlýtur að vera það sem átt er við þegar talað er um barnsmóður barna einhver en ekki móður barna hans eða barnsmóður hans.

Og hvað er ,,heyrnarmál vegna skulda"? Væntanlega stendur hearing í enska textanum ...

|

Prófarkalesturinn gleymdist

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan þegar ég sá auglýsingu frá Hagkaupum í blaði að á Food & Fun-kokkakeppninni hékk á endavegg keppnissalarins risastór auglýsing frá fyrirtækinu. Minnst tuttugu fermetrar.

Og það var villa í textanum. Vantaði eitt "í", þarna stóð: Meistarakokkarnir versla Hagkaupum. Það hefði nú kannski verið ástæða til að láta lesa textann yfir áður en lagt var í kostnaðinn við að prenta svona risaplakat.

Ekki þar fyrir, svona villur fara auðveldlega framhjá öllum. Kannski er þetta plakat búið að hanga þarna á hverri keppni frá upphafi og ég hef bara ekki lesið á það fyrr.

Það kemur svosem oft fyrir að slæmar villur fari framhjá öllum. Ég man þegar ég var hjá Iðunni, þá var okkur bent á það utan úr bæ að í gyllingu á kili einnar Aldarinnar væri meinleg villa, þar stóð nefnilega Minnsiverð tíðindi. Þetta var hálfu öðru ári eftir að bókin kom út. Villan var hinsvegar ekki á kápunni og þar sem við sáum bókina aldrei nema með kápu hafði þetta gjörsamlega farið framhjá öllum. Búið að binda og selja mörgþúsund eintök af bókinni og alltof seint að gera nokkuð, nema ég ætla rétt að vona að þetta hafi verið lagað þegar þessi Öld var endurprentuð.

En eftir þetta var passað upp á að lesa gyllingarklisjur vandlega yfir.

|

Femínistinn

Ég fór á Hótel Sögu í morgun, ekki á klámráðstefnu reyndar, heldur til að halda stutta tölu yfir ferðaþjónustunemendum úr Hólaskóla. Þannig að það var ekki fjallað um neitt grófara en hrútspunga.

Já, og skv. Fréttablaðinu í morgun er komið upp úr dúrnum að almenningsálitið er í minnihluta.

Og minn gamli skólafélagi Steingrímur vill stofna netlöggu gegn klámi og öðrum ósóma. Hmm. Netið var nú ekki komið til sögunnar þegar við vorum í MA en ég man svosem ekki eftir að Stæn skoðaði pornóblaðasafn Teoríukappans af neitt minni áhuga en aðrir á þeim árum. En svona breytast menn nú með aldrinum. Ég man líka að ýmsum þóttu firn mikil þegar Steingrímur barðist á sínum tíma gegn lögleiðingu bjórsins og rifjuðu upp gamlar sögur úr Stæns Breweryi.

Og svo er Steingrímur meiraðsegja orðinn femínisti. Sum tíðindi þarf nú að segja tvisvar ... minnst.

|

26.2.07

Ég játa ...

Æ, ó. Ég var að átta mig á því að ég hef líklega skrifað nafnlausa bréfið fræga. Öll rök hníga að því.

1) Ég hef notað óekkí í texta hér á blogginu.
2) Ég skrifa oft En á eftir punkti.
3) Ég á það til að skrifa inní. Jafnvel uppí og oní líka, en þetta kom reyndar ekki fyrir í bréfinu svo að það segir ekkert.
4) Ég man reyndar ekki eftir að hafa notað orðið skrúflulaust en gæti vel hugsað mér að gera það. Afbragðsorð. Og það er víst kommalegt að skrifa það með f-i. Ég var einu sinni kommúnisti.
5) Ég er undir fimmtugu. Næstu þrjár vikurnar allavega.
6) Ég er reyndar ekki löglærð en ég les gjarna hæstaréttardóma og fleira slíkt á netinu og eitthvað síast inn.
7) Ég er ekkert voðalega hrifin af Baugi þessa dagana.

|