Femínistinn
Ég fór á Hótel Sögu í morgun, ekki á klámráðstefnu reyndar, heldur til að halda stutta tölu yfir ferðaþjónustunemendum úr Hólaskóla. Þannig að það var ekki fjallað um neitt grófara en hrútspunga.
Já, og skv. Fréttablaðinu í morgun er komið upp úr dúrnum að almenningsálitið er í minnihluta.
Og minn gamli skólafélagi Steingrímur vill stofna netlöggu gegn klámi og öðrum ósóma. Hmm. Netið var nú ekki komið til sögunnar þegar við vorum í MA en ég man svosem ekki eftir að Stæn skoðaði pornóblaðasafn Teoríukappans af neitt minni áhuga en aðrir á þeim árum. En svona breytast menn nú með aldrinum. Ég man líka að ýmsum þóttu firn mikil þegar Steingrímur barðist á sínum tíma gegn lögleiðingu bjórsins og rifjuðu upp gamlar sögur úr Stæns Breweryi.
Og svo er Steingrímur meiraðsegja orðinn femínisti. Sum tíðindi þarf nú að segja tvisvar ... minnst.