Prófarkalesturinn gleymdist
Það rifjaðist upp fyrir mér áðan þegar ég sá auglýsingu frá Hagkaupum í blaði að á Food & Fun-kokkakeppninni hékk á endavegg keppnissalarins risastór auglýsing frá fyrirtækinu. Minnst tuttugu fermetrar.
Og það var villa í textanum. Vantaði eitt "í", þarna stóð: Meistarakokkarnir versla Hagkaupum. Það hefði nú kannski verið ástæða til að láta lesa textann yfir áður en lagt var í kostnaðinn við að prenta svona risaplakat.
Ekki þar fyrir, svona villur fara auðveldlega framhjá öllum. Kannski er þetta plakat búið að hanga þarna á hverri keppni frá upphafi og ég hef bara ekki lesið á það fyrr.
Það kemur svosem oft fyrir að slæmar villur fari framhjá öllum. Ég man þegar ég var hjá Iðunni, þá var okkur bent á það utan úr bæ að í gyllingu á kili einnar Aldarinnar væri meinleg villa, þar stóð nefnilega Minnsiverð tíðindi. Þetta var hálfu öðru ári eftir að bókin kom út. Villan var hinsvegar ekki á kápunni og þar sem við sáum bókina aldrei nema með kápu hafði þetta gjörsamlega farið framhjá öllum. Búið að binda og selja mörgþúsund eintök af bókinni og alltof seint að gera nokkuð, nema ég ætla rétt að vona að þetta hafi verið lagað þegar þessi Öld var endurprentuð.
En eftir þetta var passað upp á að lesa gyllingarklisjur vandlega yfir.